laugardagur, 26. október 2024

Talandi um bækur

Í geðshræringunni miðri, komin aftur til Parísar eftir að hafa verið greind öðru sinni með bannsett óbermið, koma mér undan síðasta leggnum af húsaleigusamningnum, rembast við að skila af mér ritgerð og taka próf milli þess sem ég grét og bölsótaðist út í arga loftið fyrir að kippa undan mér draumnum datt ég niður á færslu á fésbúknum þar sem Harry Hole bálkurinn var auglýstur gefins. Ég var fljót að grípa glæpagæsina ásamt því að panta flugmiða, aðra leið, til Íslands og pakka ofan í töskur.

Auðvitað voru það mamma og pabbi sem sóttu mig á flugvöllinn þegar ég kom til baka. Á leiðinni frá vellinum stoppuðum við í Hafnarfirði til að sækja bækurnar. Hitti þar fyrir yndislega konu og köttinn hennar. Brunuðum því næst beina leið til Ólafsvíkur. Þegar ég flutti til Parísar flutti ég lögheimili mitt til foreldra minna. Aldrei hefði ég þó átt von á að eiga eftir að búa í Ólafsvík en sú varð þó raunin þessa mánuði sem það tók að jafna mig eftir uppskurðinn og þann tíma sem lyfjameðferðin tók. 

Að ég ætti þar á eftir eftir að færa mig um set til Ísafjarðar er svo önnur saga en nú er komið að því að einhver annar fái að njóta afraksturs Jo Nesbö því bæði er ég hætt að safna bókum (ótrúlegt en satt) og bækur á að lesa. Leynist einhver þarna úti sem hefur lengi dreymt um að lesa allar bækurnar um hinn harðsoðna Harry Hole lögreglufulltrúa? Ef svo er bið ég þig vinsamlegast um að gefa þig fram og þessi stafli verður þinn

fimmtudagur, 24. október 2024

Slétt heilt ár liðið

síðan ég lagðist undir hnífinn. Illkynja ristilkrabbamein á lokastigi fjarlægt, taka tvö. Úr lifur að þessu sinni. Gekk svona líka ljómandi vel. Reyndar erfiðari aðgerð en síðast og batinn því örlítið hægari. Fleiri nætur á spítala og meiri þörf á verkjalyfjum en þó ekkert til að tala um. 

Það var töluvert mikið erfiðara að vera greind aftur með krabbamein og töluvert mikið sárt að neyðast til þess að flytja aftur heim þvert á alla drauma. Án þess að hafa nokkrar heimildir, máli mínu til stuðnings, get ég vel ýmyndað mér að fæstum, ef nokkrum, sem einu sinni hafa verið greindir með krabbamein langi til að heyra þá greiningu aftur á lífstíðinni. Í mínu tilfelli var að auki þungbært að snúa aftur til lífs sem ég hafði þegar kvatt og neyðast til að kveðja líf sem ég var þegar búin að skapa mér. 

Það var ekki skurðaðgerðin sem mig kveið fyrir heldur lyfjameðferðin með öllum sínum fylgifiskum. Rétt eins og áður var það fólkið mitt sem stóð þétt við bakið á mér og veitti mér styrk. Þrjár eldri systur, yngri bróðir og allir þeirra fylgifiskar. Fyrst og síðast, og allt þar á milli, mamma og pabbi. Án þeirra væri ég ekki svo mikið sem einu sinni til. 

Rétt áður en ég flutti aftur heim, til að takast á við þær áskoranir sem lífið kaus að fleygja framan í mig, ákvað ég að láta annan langþráðan draum rætast. Til að gera það gekk ég sjálfviljug niður þennan stiga


og upp aftur. Þannig er nefninlega lífið. Stundum þurfum við að ganga niður stiga en oftar en ekki göngum við hann aftur upp líka. 

Lífið er ekki bara leikur, það er líka dans á rósum.

laugardagur, 19. október 2024

Sumt breytist og annað ekki

Fyrir örfáum árum síðan (lesist: fyrir ríflega áratug og gott betur) gaf Magga systir mér Adidas bakpoka af praktískum ástæðum, litla systir hennar hafði fest kaup á sinni fyrstu íbúð í Skaftahlíð en átti engan bíl. Bakpokinn var því hugsaður sem innkaupapoki fyrir búðarferðir og varð að geta rúmað 3 rauðvínsflöskur að auki. Bakpokinn atarna gerði gott betur og er enn í fullu fjöri. 

Eftir að hafa lokið svívirðilega leiðinlegri bók, drukkið fulla könnu af pressukaffi, hafið lestur á ekki síður leiðinlegri kerlingarbrók og hámað í mig hrærð egg ákvað ég að leggja af stað í leiðangur í Kringluna. Fótgangandi, af því ég á ekki bíl, og með bakpoka á bakinu.

Þar sem ég arkaði Skaftahlíðina, mér til gamans, varð mér hugsað til þess tíma er ég bjó þar og arkaði einmitt ófáar ferðirnar í Kringluna til að kaupa rauðvín og í matinn, með Adidas bakpokann fyrrnefnda á bakinu. Þar sem ég stóð í Hagkaup í Kringlunni og var að biðja ungu konuna í fiskborðinu um fisk kom þar að karlmaður, álíka miðaldra og ég, og spurði með þjósti hvar brauðraspurinn væri? Aumingja afgreiðslustúlkan, sem var að hlusta á hvað ég var að biðja um í fisk- og kjötborðinu, gat ekki leiðbeint manninum sem dritaði út úr sér fúkyrðum í kjölfarið, sló flötum lófa í kælikistu fyrir aftan okkur og rauk í burtu. 

Sjálf þurfti ég að leita aðstoðar hjá starfsmanni þar sem ég mér tókst ekki að finna sítrónusafa. Starfsmaðurinn talaði litla íslensku svo ég brá fyrir mig enskunni og hann var fljótur að leiða mig á rétta braut. Þar sem ég var að þakka honum fyrir kom kona aðvífandi (já, hún leit líka út fyrir að vera svipað miðaldra og ég) og fór að spyrja hann hvort þarna væri að finna nýja vörulínu frá fyrirtæki sem ég hafði aldrei heyrt um. Þegar starfsmaðurinn bar fyrir sig litla íslenskukunnáttu hóf konan reiðilestur (á íslensku) sem ég ákvað að enda þar og þá. Í ljós kom að það var ekkert vandamál fyrir konuna að tala ensku og starfsmaðurinn, sem sýndi ekkert af sér annað en kurteisi og ljúfmennsku, vissi upp á hár hvaða nýju vörulínu konan var að falast eftir og teymdi hana þangað. 

Þar sem ég arkaði með bakpokann fullan af mat, og reyndar bara 2 rauðvínsflöskur, yfir Miklatún varð mér hugsað til þess hversu oft ég stikaði yfir þetta tún á föstudags- og laugardagskvöldum til samfunda við bestu vinkonu mína. Bestu vinkonu mína sem ég í dag var eiginlega að skunda til, nema í dag leigi ég hjá henni litla íbúð sem hún á bakatil við húsið sem hún býr í, og hefur búið í s.l. áratugi. 

Það kostar ekki neitt að vera kurteis en afraksturinn af kurteisi getur reynst ríkulegur. Nú legg ég aldeilis ekki meira á ykkur enda ragúið búið að malla, á lágum hita, í yfir klukkutíma og tími til kominn að sjóða tagliatellið. Ef þú vilt njóta regnbogans verður þú að umbera regnið 

Mynd tekin á leið minni frá Kringlu í dag

P.s. fyrir áhugasama þá er ekki fiskur í ragúi.