Í fyrradag hringdi ég í mömmu til að óska henni til hamingju með afmælið. Var nokkurn veginn líka að elda á sama tíma, svo kölluð löng eldamennska. Símtalið við mömmu var stutt, rétt um 1,5 klukkutími, ekki neitt neitt og það á afmælisdegi og eldamennskan töluvert lengri.
Í gær voru tvö ár liðin síðan ég kom heim í Veghús um miðjan dag, opnaði kampavín og skálaði við sjálfa mig og kettina. Tilefnið og enda ærið, úrskurðuð krabbalaus af doktor krabba. Krabbameinið var mikilvægur hlekkur í keðju tannhjóls sem enn snýst en þrátt fyrir að eiga kælda ekkju í ísskápnum þá datt mér ekki einu sinni til hugar að skála fyrir gærdeginum. Óhuggulegt til þess að hugsa að frúin sé orðin svona lingeðja af búsetu sinni erlendis.
Í morgun var espresso kannan með uppsteyt, í staðinn fyrir að spúa kaffi upp um stútinn rétt lympaðist kaffilituð froða þar upp, vatnsgufan stímaði hins vegar af fullum krafti út um ventilinn á hlið könnunar. Afraksturinn varð því rétt um einn bolli, í minni kantinum, og rótsterkur jafnvel fyrir sjóaða kaffidrykkjukonu sem frúin þó er. Könnuna keypti ég í Monoprix fyrir ekki svo löngu og nú þegar hef ég gúgglað ýmsar ástæður og lausnir á vanda þessum sem liggur í augum uppi að er alvarlegur. Ég neyddist því til að hella uppá í morgun, vildi ekki betur til en svo að sá kaffisopi var lapþunnur.
Það er vandlifað í henni veröld og það getur reynst erfitt að vera manneskja, enda eru ekkert allir góðir í því. Þó er vert að hafa í huga að lífið er ekki bara leikur, það er líka dans á rósum.
1 ummæli:
<3
Skrifa ummæli