fimmtudagur, 16. júní 2011

Spott á sportprís

Sá myndarlegi gerir grín að mér fyrir að segja (og skrifa) sportprís. Skv. honum á þetta að vera spottprís. Heyr nú á endemi, ég hef aldrei heyrt annað eins. Sá myndarlegi segir líka "er ekki kominn tetími" í staðinn fyrir kaffitími. Uppástóð að þannig væri það þó enginn sem ég kannast við þekki annað fyrirbæri en kaffitíma. Já, líka amma mín níræð. Enda drekkur sá myndarlegi aldrei te. Svo kallar hann líka safa djús og djús safa. Hnuss. Oseiseinei, ég fer nú ekki að taka mikið mark á þessu þvaðri. Enda vitum við öll að; á baki hvers manns liggur góð kona. Allavega ég. Og Magga systir mín.

Talandi um 17.júní, þá er hann á morgun. Í fyrsta skipti í milljón, billjón ár ætla ég hvorki niður í miðbæ Reykjavíkur né á Rútstún. Ekkert þjóðhátíðarpopp þetta árið, seiseinei. Við höfum öðrum skemmtilegri hnöppum að hneppa.

Jibbíjeyoghæhó.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

haha, spottprís er það sko - en ég segi kaffitími þó ég drekki ekki kaffi...

Ég fer heldur ekki í bæinn, sá 11 ára er sá eini sem langar í bæinn og hann fer bara sjálfur með vini sínum.

Frú Sigurbjörg sagði...

Já, mér sýnist á netinu að spottprís sé rétt, en sportprís hinsvegar sé frekar mikið tekið meðal hinna meðal Jóna. Ég get alls ekki farið að breyta þessu núna; verð að halda þessu til streitu svo Pétur geti nú gert grín að e-u hjá mér.

Þið hafið vonandi skemmtilegum hnöppum að hneppa eins og við; gleðilegan þjóðhátíðardag : )

Ragna sagði...

Spottprísinn verður ekki af þeim myndarlega tekinn - þú verður bara að sætta þig við það. En það er heldur ekki hægt að vera sammála um allt í lífinu. Mikið ferlega væri það nú leiðinlegt.
Hafið það gott um helgina meða eða án tetímans.

Frú Sigurbjörg sagði...

Okkur Pétri kemur blessunarlega svo vel saman að við höfum efni á að vera ósammála um sumt. En sem betur fer er það ekki margt samt.

Takk fyrir kveðjuna kæra Ragna og góða helgi sömuleiðis : )

Kristín í París sagði...

Ég tek stundum kaffipásu, en um fjögurleytið hefst drekkutíminn.

Frú Sigurbjörg sagði...

Drekkutíma kannast ég við og finnst notalegt orð. Gæti vel hugsað mér drekkutíma eftir kaffitíma.