laugardagur, 27. febrúar 2010

Imba frænka mín

bjó til rosalega góða hvíta köku með súkkulaðibitum og hvítu kremi. Hún drakk alltaf kaffið sitt úr glasi. Hún tók alltaf vel á móti gestum og veitti vel af mat. Hún átti sjálf engin börn en ól samt upp þrjú. Henni þótti vænt um dýr og átti bágt með að vera nálægt dauðum skepnum. Það var gaman að vera í sveit hjá henni. Hún leyfði mér alltaf að reka beljurnar, dansa við hundinn og bannaði mér aldrei að gefa honum brenni; bað mig bara um að gefa honum ekki mikið. Svo leyfði hún mér alltaf að hlusta á plöturnar sínar þegar ég kom í heimsókn. Hún var hörkudugleg og líka glettin. Hún var mikil blómakona og á enn fallegasta garðinn í Borganesi. Svo þótti henni voða vænt um pabba minn.

Imba var fædd í mánuðinum mínum og kvaddi í honum líka. Mér skilst að Imba frænka mín sé jafngömul mér á þessari mynd


Þetta er ekki Imba eins og ég þekti hana, en þó þekki ég svipinn vel. Mér þykir vænt um hana.

miðvikudagur, 24. febrúar 2010

Best fyrir

Tók eftir því fyrst í dag að myndarlegi maðurinn virðist vera á síðustu metrunum



Best fyrir: 26.03.2010 stendur á hvítum miða á ilinni. Ég hafði nú satt að segja vonast eftir lengri tíma. Sjáum hvað setur.

föstudagur, 12. febrúar 2010

Bráðum, bráðum

Ég elska að eiga afmæli. Ég elska að hlakka til þess og nýt þess í botn að fólk óski mér til hamingju með að hafa fæðst. Elska gleðina og brosin sem ég fæ, en mest af öllu elska ég að fá pakka. Og já, svona almennt að fá e-ð fyrir það að hafa fæðst. Til að fá sem mest út úr þessu hef ég alltaf 2. í afmæli og jafnvel 3. Ég á reyndar ekki afmæli fyrr en þrettánda, en ég er þegar búin að fá afmæliskaffi, fullt af brosum OG frábærar gjafir. Frábæru samstarfsstúlkur mínar gáfu mér alveg nýja sýn í dag; auðvita á maður að byrja að hita upp fyrir afmæli! Rétt eins og með bolludaginn; hann er vissulega bara einn dag á ári, en auðvita byrjar maður að úða í sig bollum þegar tækifæri gefst. Grípa gæsina áður en hún gefur upp öndina.



Eftir rúmann kltíma á ég loksins afmæli. Ég er þegar byrjuð að suða um tánudd.

þriðjudagur, 2. febrúar 2010

Février

Febrúar er mánuðurinn minn. Ég deili honum glöð með góðu fólki, en ég á hann samt. Ég hef ekki tíma til að hlakka til fjarlægs vors í Janúar, ég er of upptekin við að hlakka til febrúars. Ég hef líka verið upptekin við að klappa poka með súrdegi, týna til hluti úr hlíð í tún, rifja upp doldið af frönsku, drekka mikið af kaffi og vera ástfangin upp fyrir haus. Hef einnig afrekað langþráð matarboð með tveimur góðum vinkonum, og á nú blómstrandi túlípana á borði og trönuberjalyktandi spýtur í glasi.

Eins og febrúar er nú oftast kuldalegur mánuður, veðurfarslega séð, þá finnst mér orðið á íslensku svo afskaplega notalegt. Á frönsku, afskaplega fallegt.