og hvorki köttum né kerlingu út sigað hefði ekki verið fyrir læknatímann. Dýralæknatímann. Prísaði mig sæla fyrir að hafa loks látið verða af því að kaupa kattabúr undir kettina, vissi að það væri komið að árlegri skoðun og kunni hvorki við að ræsa út aðra mannveru til að halda á öðrum kettinum eða að mæta með systkynin í gömlu eighties ferðatöskunni minni. Nýja búrið minnir reyndar um margt á tösku en kettirnir sjá þó í það minnsta út um net á hliðum og toppi.
Eftir vel ríflega áratuga hollustu við sömu dýralæknastofuna ákvað ég að færa mig (eða ætti ég frekar að segja kettina?) nær heimabyggð. Rogaðist með samtals 11 kg. af kattartvennu og komst að því að gamli staðurinn var ekki búinn að senda skýrslur kattana á nýja staðinn. Ekki að það kæmi að sök, systkynin voru þukluð og hlustuð og sprautuð og gefin ormapilla, þ.e.a.s. Bjössa var gefin pilla, Birta sat við sinn þrjóskukeip og dýralæknirinn á nýja staðnum gerði það sama og dýralæknirinn á gamla staðnum; gafst upp og gaf henni sprautu.
Í dag komst ég að því að örmerki geta færst til í dýrum og til eru tilfelli þar sem örmerki hreinlega hverfa úr einstaka skepnum. Ekki algengt en þó þekkt sagði dýralæknirinn þar sem hún strauk Bjössa með örmerkjalesaranum hátt og lágt. Sótti annann lesara og hélt áfram að "nudda" Bjössa sem virtist njóta þess að fá strokurnar. Þegar ekkert fannst í Birtu heldur sóti hún annan dýralækni til að leita til öryggis líka. Það er afar ólíklegt að tveir kettir, örmerktir sama daginn, týni báðir örmerkjunum sem búið er að koma undir húðina á þeim. Engu að síður er örmerkjun skráð frá 2019 og ég sannarlega greiddi fyrir hana á sínum tíma. Konan sem tók á móti mér á gamla staðnum viðurkenndi að þetta væri jú skrýtið en hún væri nú bara í afgreiðslunni og eigandinn yrði að svara fyrir þetta. Eigandinn er svo að sjálfsögðu staddur erlendis en hún lofaði mér því að hún myndi hringja í mig í næstu viku.
Kettirnir mínir, sem skv. öllum líkindareikningum voru aldrei örmerktir þarna um árið, verða því bara að halda áfram að dóla sér óörmerktir hér í efri byggðum. Nema hann haldi áfram að rigna. Vonandi ekki þó. Sjálf get ég látið mér hlakka til símtals í næstu viku. Eða ekki. Kemur í ljós.