sunnudagur, 21. apríl 2013

Kampavín & rjómi

Tók á móti þeim myndarlega meða hreindýrafille og kirsuberjasúkkulaðisósu


Í morgunn vaknaði sá myndarlegi organdi á kampavín með kaffinu, gjörspilltur af eftirlæti


Að sjálfsögðu lét ég það eftir honum ásamt appelsínusúkkulaðiköku með berjum og rjóma


Eins og þetta væri ekki nóg teymdi ég hann líka á Borgina í dásamlegan hádegisverðarfjarka 


Að skála í kampavíni að morgni af því bara er næstum því jafn skemmtilegt og að vera ástfanginn


en bara næstum því.

föstudagur, 19. apríl 2013

Gestagangur & fjarvera

Í gær buðum við foreldrum Péturs í mat. Sátum sex að miðjum snæðingi er dyrabjallan hringdi. Þar voru mætt Magga systir og Hörður mágur sem voru drifin inn í stofu meðan ég hellti upp á kaffi og konfekti frá jólum í skál. Var passlega búin að hella upp á aðra könnu þegar dyrabjallan hringdi aftur. Foreldrar mínir voru mætt á svæðið og drifin til stofu í kaffi og konfekt. Eftir tæplega þá könnu afréð ég að hella upp á meira kaffi. Viti menn, bjallan hringdi í þriðja sinn það kvöldið. Brósi og Sævar mágur voru mættir og drifnir inn í stofu, enn til konfekt og nýuppáhellt kaffi. Hér var því handagangur, eða ætti ég að segja gestagangur, í öskjunni af óboðnum en afar velkomnum gestum. Ég áræddi þó ekki að hella uppá fjórðu könnuna, óvíst hvað það hefði leitt af sér.

Í kvöld er ég ein heima. Gal-ein. Sá myndarlegi er farinn í árlega strákaferð. Satt best að segja hlakkaði ég til þessarar helgar. Ég hlakkaði til að svala þeirri þörf að vera ein, þörf sem af og til skýtur upp kollinum. Þörfin til að elda fyrir mig eina, gleyma mér í plötunum mínum, dansa ein um allt hús og hlusta á ekkert nema umganginn í mér einni. Sem fyrr mætir sú þörf þeirri þversögn að sakna þess myndarlega. Yfir mig dembist eirðarleysi, eirðarleysi þess sem saknar. Skrýtin þessi blanda af því að vilja vera ein en geta samt ekki hugsað sér heila kvöldstund án annars manns. Helgarferð þess myndarlega styttist um heilan dag, hann kemur heim á morgun í stað sunnudags. Sem betur fer, ég get ekki beðið eftir þessum augum og þessu brosi


miðvikudagur, 17. apríl 2013

Talandi um rósir

þá kem ég eins og útsprungin rós undan helgi


þrátt fyrir skítakulda í bústað var ég heit að innan af eldamennsku, lestri, pottferðum og bréfaskriftum. Hlýnaði inn að beini við að fylgjast með einbeitta manninum mínum og þiggja tánudd í lærdómspásunum hans


Þegar við keyptum rósirnar í sumar sem leið var okkur sagt að líklega myndu þær ekki blómstra fyrr en sumarið á eftir. Við nostruðum engu að síður við þær blessaðar og dedúuðumst í garðinum sem aldrei fyrr


Rósirnar létu eins og þær hefðu ekki gert annað en að standa í garðinum okkar og glöddu augu og hjörtu, prýddu beð og vasa, garði og heimili til sóma


Agnúast ekki út í snjóinn en hlakka til sumars. Hlakka til að draga vatnsslönguna um garðinn, teyga sólina af veröndinni og njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða, því


föstudagur, 12. apríl 2013

Rósir og curry paste

Sá myndarlegi fylgist grannt með hitamælinum þessa dagana. Hann las um umhirðu rósa á netinu í vikunni og dreif okkur í kjölfarið út í garð að fylgja þeim eftir. Þessum böggli fylgdi þó það skammrifi að engin megi hættan vera á næturfrosti. Nú bítur sá myndarlegi sig í herðablöðin og bolsótast út í að nú hljóti bara að koma næturfrost fyrst hann æddi af stað. Maðurinn minn á það nefnilega til að vera fljótfær. Þegar hann er búinn að setja undir sig hausinn og brunar í verkið er oft ekki tauti við hann komið, eins og um daginn þegar hann sturtaði óhemju magni af curry paste út í matinn, þá þýddi ekkert fyrir mig að benda honum á að þetta væri paste en ekki sósa, hann var búinn að lesa á krukkuna og var kominn í verkið. Eldhúsverkið.

Ég stóðst ekki mátið að segja Melunum sem ég vinn með frá 2 krukku paste atviki þess myndarlega og skríkti af kátínu þegar hlægjandi bræðurnir báðu mig um að afhenda honum gjöf



Næst þegar sá myndarlegi ætlar að tvöfalda uppskrift og setja 2 krukkur af curry paste í matinn í stað hálfrar krukku ætla ég að benda honum pent á að setja upp réttu gleraugun