laugardagur, 23. febrúar 2013

Kúmmin & kanill

Í morgun færði sá myndarlegi mér kaffi í rúmið og vippaði svo amerískum pönnukökum framan úr slopperminni


Í kvöld kryddaði ég lambaframhryggjarsneiðar með salti, pipar, kummin, kanil og chili, velti upp úr hveiti og steikti á pönnu stutta stund


Dillaði mér og söng með Billy félaga mínum meðan sá myndarlegi rýndi í skólabækur


Steikti gulrót og smátt skorinn lauk á sömu pönnu og kjötið, bætti 2 pressuðum hvítlauksgeirum við og örlítið seinna 2 dl af vatni og 2 dósum af tómötum. Allt sett í eldfast mót og látið dóla í klstund í ofni á 160°, álpappír breiddur yfir mótið. 1 dós af snjóbaunum bætt við og látið malla, án álpappírs, í 10 mín. í ofni til viðbótar


Í salat átti ég iceberg, papriku, tómata, blaðlauk, ólífur, hvítlauksost og sesamfræ


Á diskana átti ég prúðbúna madame Angelique


Rétturinn þarf ekki á meiru en salati að halda, mikil fylling í snjóbaununum og við söknuðum hvorki kartafla né hrísgrjóna


Best er svo að sjálfsögðu að njóta góðs matar í enn betri félagsskap


Dino hélt okkur svo selskap við uppvaskið og sló taktinn í vangadansinum þar á eftir. Lífið, ó lífið.

2 ummæli:

Íris sagði...

Lífið er dásemd með yndislegu fólki og ekki spillir góður matur fyrir ;)

Frú Sigurbjörg sagði...

Satt segir þú mín kæra :-)