miðvikudagur, 17. október 2012

Lýðveldismubla


Þegar ég kynntist þeim myndarlega bjó ég í Sigvaldablokkinni í hlíðunum. Ég bjó í 47 fermetrum með pínulitla kompu (á stærð við kústaskáp) við hliðina á hurðinni minni. Hinar íbúðirnar voru flennistórar með feikn góðar kompur (á stærð við herbergi). Íbúarnir sem mest höfðu plássið dugði greinilega ekki plássið. Fyrir utan hjól og barnavagna úði og grúði af dóti og drasli í sameigninni. Einn daginn var ákveðið að taka skurk í dótinu og henda draslinu. Kom þá ekki nema í ljós hin prýðilegasta hilla sem enginn ábúandi kannaðist nokkuð við eða kærði sig um að hirða. Ég, sem hafði flokkað og sorterað og hent og fleygt til að koma sjálfri mér og mínu hafurtaski fyrir í skonsunni minni, gat ekki hugsað mér að sjá á eftir þessari bláókunnugri hillu í ruslið. Ég, sem var svo gott sem farin að búa með þeim myndarlega ákvað að taka hilluna undir minn handlegg og flytja hana með mér í Samtún. Þar hefur hún staðið upp við rönd uppí risi útí horni og safnað ryki.

3 árum síðar þurrkaði ég af henni rykið, splæsti olíu á viðinn og sá myndarlegi hengdi hana upp. Hillan, sem merkt er 17.júní 1944, smellur eins og tappi við tíkarsrassgat við nýja sófasettið okkar. 


Svei mér þá ef sá myndarlegi smellur ekki eins og flís við ....?

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sverða...sá fyrst ekki hilluna, fannst bara sá myndarlegi vera fínasta mubla! Og takk fyrir að blogga aftur. Maður vill fylgjast með sér og sínum með kærri frá okkur Bróa.

Frú Sigurbjörg sagði...

Tja, ég er nú bara feginn að sá myndarlegi er ekki jafn gamall lýðveldinu :-)

Íris sagði...

Báðar mublurnar passa eins og flís við..... hillan og sá mynarlegi :)

Lífið í Árborg sagði...

Hilla er ekki bara hilla, hjá ykkur er hún listaverk á góðum stað. Þið eruð algjörir snillingar að nýta ykkur gamla hluti sem verða eins og nýir, í samtúninu.

G. Pétur sagði...

Hún Katla mín er svo flink í gömlu dóti. Sérstaklega því sem passar einsog flísar við ......

Frú Sigurbjörg sagði...

Takk Þórunn, okkur langaði einmitt til að hillan yrði ekki bara hilla heldur stofustáss. Þess vegna datt okkur í hug að hengja hana þarna og leyfa henni að njóta sín; engar styttur eða vasar sem fara ofan á þessa gersemi.

Íris; sammála ;-)

Ástin mín; það erum við sem smellum eins og flísar við .... Restin kemur svo af sjálfu sér :-*

Frú Sigurbjörg sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.
G. Pétur sagði...

Restin kemur af sjálfu sér, mikil ósköp, án þess þó að vera nokkur rest :-)