Fyrir rúmri viku síðan sat ég stjörf yfir uppboði á netinu. Listmunauppboði. Við Pétur höfum oft talað um það að prófa að bjóða í verk, kannski bara smotterísboð svona rétt til að sjá hvað myndi gerast. Höfum nefninlega oft séð flottar myndir slegnar á sportprís. Sá myndarlegi var erlendis á tilsettum lokadegi uppboðs svo ég sat hér ein við tölvuna og byrjaði að bjóða. Fyrstu tvær fékk ég nokkuð auðveldlega á fínum prís. Þegar kom að þeirri þriðju, og jafnframt þeirri mynd sem ég ágirntist mest, fór e-r rækallans kalli að bjóða á móti mér. Ég reyndi að leiða hjá mér þá tilhugsun að hugsanlega væri galleríið að bjóða á móti mér; þetta hlyti að vera búttaður miðaldra maður, með svargrátt hár skipt í miðju, með yfirvaraskegg, í beigelituðu prjónavesti með doppótta þverslaufu um hálsinn.
Og ég bauð. Og bauð. Og beið. Og beið. Því í hverst sinn sem ég bauð lengdist tíminn um 4 mín. svo hægt væri að bjóða á móti. Og ekki bara bauð ég og bauð, heldur bauð ég í Péturs nafni, sem sat og beið á hótelherbergi í Kaupmannahöfn og jésúsaði sig og ákallaði heilagan viskífleyg yfir hverjum tölvupóstinum sem birtist í ipadnum um boð og mótboð. Sms-in sem ég fékk frá honum fóru frá því að vera "glaður og spenntur yfir að hafa eignast tvö málverk með þér", yfir í að "ég get ekki skilið þig eina eftir heima kona".
Ég var í ham. Uppboðsham. Var farin að velta því fyrir mér hvort það væri svona sem spilafíklum liði. Bara leggja aðeins meira undir...
Mér til þæginda hætti kallinn með þverslaufuna að bjóða akkúrat þegar ég gaukaði fram upphæðinni sem ég var búin að ákveða áður en uppboð hófst, að yrði mitt hámark. Ég mun því ekki komast að því að þessu sinni hvort ég er raunverulegur uppboðsfíkill.
Og nú er aftur uppboð á vefnum. Og við erum aftur búin að skoða allar myndirnar. En ég mun ekkert bjóða í þetta sinn. Pétur er heima og ekkert á leiðinni erlendis næstu vikurnar.
Reyndar ein mynd sem ég er rosalega hrifin af. En ég býð ekkert. Bíð bara.
Held ég.