fimmtudagur, 10. mars 2011

Söngur og sælgæti

Í gær hlustaði ég á ótal börn syngja ótal lög. Hvatinn var sælgæti. Sum sungu sterkt, önnur sungu veikt. Flest héldu þau takti og öll voru þau til fyrirmyndar kurteis. Kisa og kanína sungu Baby með Justin Bieber, 4 stúlkur sungu lag á latínu og munu vafalítið allar stunda framhaldsám í Lærða skólanum, tvær Hermionur tóku klassískan Gamla Nóa og einn ungur herramaður heillaði mig með því að vera einn á ferð, og syngja vel tvö erindi af fallegu lagi sem ég hef ekki heyrt áður. Besta skemmtunin voru 4 hnátur með atriði úr Ávaxtakörfunni, klæddar eins og perur og appelsínur, sungu og dönsuðu af óbeisluðum krafti og ánægju.

Í morgun fór ég á hárgreiðslustofu sem ég hef ekki prófað áður og bað hárgreiðslukonuna um að koma mér á óvart. Meðan hún klippti var ég hárviss um að ég sæi glitta í fyrsta gráa hárið mitt. Ég kunni ekki við að fá það staðfest hjá sérfræðingnum með skærin og fjasa um hvað ég væri búin að bíða lengi eftir því og hvað ég ætla að halda ærlega veislu til að halda upp á það; í stólnum við hliðina á mér sat kona á vel miðjum aldri og fletti vikublöðum með álpappírsræmur í hárinu.

Og nú finn ég gráa hárið hvergi.

2 ummæli:

Íris sagði...

Þú finnur gráa hárið aftur því get ég lofað ;) Svo er ástæða til að halda veisluna því þú ert jú búin að sjá það þó þú hafir týnt því aftur.

Frú Sigurbjörg sagði...

Verð að fara að hætta að vinna svona mikið til að undirbúa veislu!