fimmtudagur, 31. mars 2011

Óvinsamleg athugasemd

Í gær kl. 17:49 dundaði e-r sér við að skrifa eftirfarandi athugasemd til mín við síðustu bloggfærslu minni;
"Þú ert viðbjóðsleg manneskja. Helst rotta af eitthverjari tegund"

Ég sjálf tók mér orðið viðbjóðsleg í munn til að lýsa væmni minni, sem er hrein skírskotun í orð sem ég hef séð skrifuð til að lýsa væmni annara. Gubbið var einnig skírskotun í orð sem ég hef séð skrifuð til að lýsa viðbrögðum við væmni annara. Mér er enn slétt sama um fólk sem þolir ekki væmni og hamingju annara, en mér ekki slétt sama um að sjúk mannvera sé að senda mér slíka athugasemd. Eins og heiglum er háttur er athugasemdin að sjálfsögðu nafnlaus. Sá/sú sem hatar mig svona mikið hefur auðvitað ekki kjark til að gera slíkt undir nafni og koma hreint fram fyrir dyrum. Gott og vel.

Það breytir ekki þeirri staðreynd að ég er ég, og ég er ánægð með og sátt við sjálfa mig. Ég er lukkunnar pamfíll sem nýt alls þess besta sem lífið hefur upp á að bjóða; einlægrar ástar og mikillar hamingju.

miðvikudagur, 23. mars 2011

Að vild.

Komst að því í morgun að fésbókarvinur minn hefur slitið vinartengslin við mig. Fésbókarvinskapur sem annars fór ekki sérlega mikið fyrir, en var að öðru leyti farsæll. Í raunheimum vorum við ekki það sem myndi kallast nánir vinir, en við höfum ákveðna tengingu við hvort annað og höfum ávalt sýnt hvort öðru vinsemd. Ég finn að mér er létt yfir þessari ákvörðun fésvinar míns. Maki hans virðist hafa horn í síðu minni, horn sem ég var fyrir margt löngu síðan farin að finna potið af, og virðist hafa fengið að vaxa og dafna upp í furðulega óvild mér til handa. Óvild sem réð sér ekki til að mynda síðast er makinn neyddist til að eiga samskipti við mig gegnum símtækið, óvild sem sá sér ekki fært að sýna lágmarks kurteisi sem við fullorðið fólk teljum okkur þó flest búa yfir, þar sem mér var hvorki heilsað né ég kvödd, aðeins skellt á mig eftir stutt erindi.

Ekki veit ég hvað ég hef makanum til miska gert, annað en að vera ég og lifa mínu 36 ára gömlu lífi, jafn ástfangin og hamingjusöm sem ég er. Ég samgleðst fólki sem tekur ákvarðanir í sínu lífi og stendur með þeim. Fésbókarvini mínum fyrrverandi og maka hans vil ég segja; "Live long and prosper."

þriðjudagur, 22. mars 2011

VARÚÐ! VÆMNI!

Myndarlegi maðurinn fór passalaus erlendis í morgun í vél sem ber heitið Katla. Mamma var fljót að bjóða 36 ára stelpunni sinni í kvöldmat; "ertu ekki bara ein að rolast?" - vantaði bara greyið mitt aftan við. Við Hjalti, sem annars erum tvö að rolast væntanlega, vorum því bæði í mat hjá mömmum okkar í kvöld. Ég fékk kjötsúpu, Hjalti fékk hamborgara.

Ég er einmanna þegar sá myndarlegi er í útlöndum. Mér finnst húsið vera tómlegt og þó ég geti hæglega dundað mér við ýmislegt, eins og t.d. að blogga og fara í mat til mömmu, þá vantar mig sárlega nálægðina við ástina mína. Ég sakna hans þegar við erum ekki saman. Já, við erum svo viðbjóðslega ástfangin og hamingjusöm að viðkvæmir gætu auðveldlega gubbað yfir væmninni. Mér er slétt sama. Hjarta mitt hoppar af kæti yfir sætu sms-unum og fallegu féspóstunum sem ég hef fengið frá ástinni minni í dag. Og hjarta mitt hlakkar til að fá myndarlega manninn minn aftur heim.

mánudagur, 21. mars 2011

Lakkrís og grjónagrautur.

Var komin heim úr vinnunni á sómasamlegum tíma og labbaði út í búð að kaupa sláturkepp. Kom heim dulbúin sem snjókarl. Grjónagrautur og grátt slátur er með því besta sem ég fæ. Þó er ég ekki hrifin af mjólk, fæ eiginlega viðbjóðshroll af tilhugsuninni einni um að drekka hana. Pabba finnst grjónagrautur líka voðalega góður. Þó borðar hann ekki hrísgrjón, setur þau c.a. undir sama hatt og pasta sem er ekki matur í hans huga. Ekki hef ég hugmynd um hvort Ólafíu systurdóttur minni þyki grjónagrautur jafn góður og okkur pabba, en henni þykja Bingókúlur góðar. Þó borðar hún ekki lakkrís. Sem er reyndar óskiljanlegt fyrirbæri með öllu í okkar fjölskyldu. Hún er það lík foreldrum sínum að það er varla smuga að það hafi verið ruglast á barni á fæðingardeildinni. Líklegra að hún þjáist af e-r heilkenni eða sjaldgæfum sjúkdóm sem orsakar þessa lakkrís-afundu.

Elska annars þennan snjó. Elska að horfa út um gluggana á þessa fegurð sem snjókoma er. Elska birtuna sem kemur af snjónum. Og já ég elska að skafa af bílnum, labba í ómokuðum snjó og vera með hárið fullt af köldum, blautum snjó eftir labbitúr.

sunnudagur, 20. mars 2011

Að njóta er nautn

Hugsanlega það eina góða við að vinna mikið er að meta upp á nýtt hversdagsleikann, eins og að komast heim í mat og jafnvel elda mat, setja í vél og brjóta saman þvott, hanga á netinu eða lesa í bók, hafa heilt kvöld til að hangsa með ástinni og hlusta á malið í kettinum.

Í morgun svaf ég út, drakk morgunkaffið í rólegheitum á náttkjólnum, las Í húsi Júlíu, labbaði maskaralaus í kulda og snjó á Köttinn með þeim Gráa, kíkti í bókabúð, bakaði köku, lagði mig, fékk góða gesti, skoðaði skattaskýrsluna mína. Þrátt fyrir þriggja sek. óþægindainnskots í daginn hef ég notið hverrar mín. Og er enn að. Ætla að leggjast baðmjúk í Pétursfaðm á grænum sófa og halda áfram að njóta frídagsins míns.

föstudagur, 18. mars 2011

Hef sl. 2 vikur

dundað mér við að vinna 10 - 15 klstunda vinnudag, virka daga sem og helgar. Sá myndarlegi hefur dundað sér við að skanna myndir úr gömlu albúmi sem vakið hafa gleði, furðulega frjústrasjón, meinfýskátínu og grímufellingu.

Sá myndarlegi hótaði að byrja að skanna gamlar filmur ef ég hætti ekki að vinna langt fram á kvöld. Þess vegna hætti ég snemma í gær, kl. fimm. Fór í Bónus í fyrsta skipti í tvær vikur og naut þess að elda kjúklingarétt frá Suður afríku með pírð augu af þreytu (heima, ekki í Bónus). Hlakkaði til að hjúfra mig í Pétursfaðmi á grænum sófanum, en fyllti þess í stað 2 stóra poka af leppum og skarti. Ekki hægt að neita svo gott sem fermdri systurdóttur um ráð varðandi átfitt og hár fyrir eighties-ball í félagsmiðstöðinni. Kom kltíma eftir miðnættið í heitan faðminn.

Eydís lætur ekki að sér hæða.

fimmtudagur, 10. mars 2011

Söngur og sælgæti

Í gær hlustaði ég á ótal börn syngja ótal lög. Hvatinn var sælgæti. Sum sungu sterkt, önnur sungu veikt. Flest héldu þau takti og öll voru þau til fyrirmyndar kurteis. Kisa og kanína sungu Baby með Justin Bieber, 4 stúlkur sungu lag á latínu og munu vafalítið allar stunda framhaldsám í Lærða skólanum, tvær Hermionur tóku klassískan Gamla Nóa og einn ungur herramaður heillaði mig með því að vera einn á ferð, og syngja vel tvö erindi af fallegu lagi sem ég hef ekki heyrt áður. Besta skemmtunin voru 4 hnátur með atriði úr Ávaxtakörfunni, klæddar eins og perur og appelsínur, sungu og dönsuðu af óbeisluðum krafti og ánægju.

Í morgun fór ég á hárgreiðslustofu sem ég hef ekki prófað áður og bað hárgreiðslukonuna um að koma mér á óvart. Meðan hún klippti var ég hárviss um að ég sæi glitta í fyrsta gráa hárið mitt. Ég kunni ekki við að fá það staðfest hjá sérfræðingnum með skærin og fjasa um hvað ég væri búin að bíða lengi eftir því og hvað ég ætla að halda ærlega veislu til að halda upp á það; í stólnum við hliðina á mér sat kona á vel miðjum aldri og fletti vikublöðum með álpappírsræmur í hárinu.

Og nú finn ég gráa hárið hvergi.

þriðjudagur, 1. mars 2011

Fór í bústað

sl helgi og reiknaði frá mér allt vit. Inn á milli hvíldi ég hugann með því að dást að fallega grenitrénu með fallegu könglunum, fór í heita pottinn, dáðist að litrófi himinsins sem fór úr svargráu í vatnslitablátt, naut þess að hlusta á Meðalfellsvatnsgutlið, dáleiddist af snjókornunum, án þess þó að leiðast neitt, og dáðist að sólsetri, stjörnubjörtum himni og myndarlega manninum mínum.

Ekki veit ég hvaða mikil- og stórmenskubrjálæði heltók Sigurbjörgina er hún skráði Kötluna í erkiansansóvinakúrsinn, í lotukerfi* í þokkabót. Voru báðar tvær bitnar í rassgatið síðdegis með óhjákvæmilegum afleiðingum; prófi.

Búin að njóta þess vel og vandlega í kvöld að hangsa án samviskubits.

*Námsefnið kennt á helmingi styttri tíma.