Tónleikarnir í gær voru jafnljúfir og þeyttur bláberjarjómi. Eitt uppklapp í viðbót og ég hefði gengið út. Mínir 34 ára gömlu fætur voru alveg búnir að fá upp í klof.
mánudagur, 25. maí 2009
Lhasa de Sela
Fór á sallafína tónleika í gærkveldi. Á ballstaðnum Nasa. Ég er alveg sátt við að dilla mér á dansgólfi Nasa á balli með td. Páli Óskari eða Sálinni. Mér leiðist hinsvegar ógurlega að vera boðið upp á að standa af mér tónleika á ballstað.
þriðjudagur, 19. maí 2009
Mont - pont
Þrátt fyrir að hafa sótt Söngskólann óreglulega og háð veiklulegt einvígi við lágdeyðuna, komst ég að því í gær ég væri önnur hæsta í 1. stiginu með einkunina níu. (lesist: já, þetta er mont)
Mér var einnig boðin stöðuhækkun í vinnunni. 1.júlí nk. tek ég formlega við verslunarstjórastöðu jakkafataráðuneytisins (lesist: deildarstjóri herradeildar) og næ að jafna 40% launatapið.
Verð þó enn að bíða til mánaðarmóta til að komast raunverulega að því, hversu mjög lukka mín hefur styrkst með hækkandi sól. Maður á víst að vera viss um þegar allt gengur of auðveldlega, að maður sé ekki að fara niður hæðina.
miðvikudagur, 13. maí 2009
To -
Myndarlegi maðurinn aftur erlendis. Sem betur fer bara yfir nótt.
Skrýtið þegar tilvera manns snýst um eina ákveðna manneskju.
Ég er lánsöm að tilvera mín snúist um myndarlega manninn.
þriðjudagur, 12. maí 2009
VR
Þegar ég var 17 ára og vann sem hlutastarfsmaður á kassa í ónefndri verslun, voru orð eins og; "það er ætlast til" og "þú verður" óspart notuð til að fá okkur til að bæta á okkur frekari vinnu. Þetta virkaði í e-n tíma þegar ég var 17 ára. Passlega lengi þó.
Nú, þegar ég er orðin 34 ára, er ég búin að komast að því að þessir frasar eru enn til innann verslunargeirans, og óspart notaðir. Það vill bara svo illa til að ég læt ekki segja mér hvað ég verð að gera.
mánudagur, 11. maí 2009
orða-vant
Taldi u.þ.b. 480 mínútur í dag. Bara 2.200 eftir fram að næsta frídegi. Langt síðan ég hef upplifað ömurleika mánudags.
Nauðsynlegt geðheilsunnar vegna að eiga sætasta kærastann, sem bíður manns brosandi í glugga í rigningu og roki.
sunnudagur, 3. maí 2009
Væl
Á morgun fer ég í 1.stigs söngpróf í Söngskólanum. Mig kvíðir fyrir. Hef í sjálfu sér ekki mestar áhyggjur af söngnum, heldur tónfræðinni og nótnalestrinum. Frá því ég byrjaði upphaflega hafa allar forsendur fyrir náminu breyst. Ný atvinna með nýjum vinnutíma og nýrri staðsetningu, hefur gert mér nánast ókleift að stunda námið sem skyldi. Mér hefur tekist að hitta söngkennarann minn og undirleikarann fyrir elskulegheit þeirra, og vilja til að hagræða tíma sínum fyrir mig. Allt annað hefur mætt afgangi, sem hefur því miður ekki verið mikill. Þar af leiðandi er ég á morgun að undrbúa mig fyrir 1.stigið, en ekki grunndeildarpróf, sem ég annars var farin að stefna að. Hætt að syngja Haydn og Brahms. Einfaldar vögguvísur og Óli og hundspottið hans tekið við. Mig langar að vera bjartsýn og uppörvandi og helst af öllu hlakka til líka, en átta mig á því betur og betur hversu lítið ég raunverulega er farin að melta allar breytingarnar. Er í raun bara enn að gleypa þær.
Í ofanálag hef ég svo áhyggjur af svínaflensueinkennum sem farin eru að hrjá mig. Er að vísu ekki farin að hrína enn, en ét eins og svín nánast hvern dag.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)