föstudagur, 30. janúar 2009

SBA

Það er skrýtin tilfinning að taka til í tölvunni "sinni" eftir 4,5 ár.
Það er líka skrýtin tilfinning að vera sagt upp, þó ástæðan sé ekki "persónuleg".
Bakpokinn minn er líka þyngri en venjulega eftir tiltektina í skrifborðinu "mínu".

Gott að geta labbað beint héðan í tíma með undirleikaranum og fá hálftíma söng-þerapíu.
Í kvöld ætla ég síðan að elda góðann mat, drekka gott rauðvín og halda upp á þetta allt saman með myndarlega manninum.

miðvikudagur, 28. janúar 2009

Nýtt lýðveldi

Það snjóar og snjóar og snjóar, og Davíð situr og situr og situr.
Það lítur út fyrir að tími Jóhönnu Sigurðar sé kominn, en við þurfum klárlega áhrifameiri breytingar en einungis kosningu í vor.

þriðjudagur, 27. janúar 2009

Mörður týndi tönnum

Meira að segja bleiki slúðurhaninn segir frá falli ríkisstjórnarinnar.

Ég hefi annars enga eirð í mér til að óttast hvað nú taki við hjá blessaðri tíkinni. Er of upptekin við að óttast ekki bara þá staðreynd að ég syng á námsmatstónleikum í kvöld, heldur bauð ég líka myndarlega manninum á þá.

föstudagur, 23. janúar 2009

fimmtudagur, 22. janúar 2009

JBJ

Sjálfstæðismenn ættu að þakka Jóhannesi Birgi Jenssyni persónulega fyrir að vera flokksbundinn, og taka þor hans sér til fyrirmyndar.

þriðjudagur, 20. janúar 2009

Like a Virgin

Af hverju má Madonna ekki líta út eins og hún sé fimmtug?
Rosalega er ég leið á því það sé ekki í lagi að eldast.
Ég var svo leið á að heyra sífellt þann lélega brandara um að; ú, ég væri að verða þrítug eins og ég fengi e-a holskeflu í andlitið við að færast yfir á annann tug, að ég ákvað að halda ekki upp á það. Hins vegar hélt ég upp á 31 árs afmælið mitt með pompi og prakt til að fagna því, ég væri loksins komin á fertugsaldurinn. Ég veit ég er enn bara þrjátíuoge-ð, en ég er samt búin að ákveða að taka hverri hrukku fagnandi og halda áfram að hlægja eins og ég get, þrátt fyrir hlátur-hrukkurnar sem gætu setið eftir við það. Ég bíð ennþá spennt eftir fyrsta gráa hárinu mínu og skil reyndar ekkert í því af hverju það lætur bíða svona eftir sér. Ég ætla nefnilega að halda góða veislu þegar það birtist.
Það að bera aldur sinn vel þýðir ekki að vera svona unglegur þrátt fyrir aldur. Það þýðir að bera aldur sinn með reisn. Í mínum heimi altjént þýðir það það.

Ég er annars rokin í söngtíma og þar á eftir þramma ég beina leið niður á Austurvöll!

sunnudagur, 18. janúar 2009

Mót-mæli

Eftir mótmælin á Austurvelli í gær fór ég í útskriftarveislu bróður míns. Þar var maður sem hélt því fram að mótmælin væru tilgangslaus; hann hefði heyrt allar ræðurnar, það væri sífellt verið að nota sömu ræðumenn, uppástóð að Lárus Páll Birgisson hefði þegar talað 3-4 sinnum á Austuvelli og hvatt til ofbeldis. Maðurinn var með þetta allt á hreinu. Samt hafði hann aðeins mætt á 2 fundi. Af 15. Annar maður í veislunni fannst mótmælin líka tilgangslaus; hann heldur því fram það skipti ekki máli hvort eða hvenær við kjósum, við fáum bara það sama. Þessi maður hefur aldrei mætt á mótmælin. Enda hlýtur það að segja sig sjálft að meðan þú-hann-hún-við-þið gerum ekki neitt, þá einmitt gerist nákvæmlega ekki neitt.

Ég er annars afskaplega stolt af litla bróður mínum, sem útskrifaðist frá Háskóla Reykjavíkur í gær. Mér fannst Arndís Hulda dásamleg á útskriftartónleikunum sínum. Poppið í Háskólabíó var gott með fallega útsýninu í Refnum & barninu, og það var notalegt að sötra bjór með myndarlega manninum í notalega sófanum á Café Rosenberg á leiðinn heim.

þriðjudagur, 13. janúar 2009

Hvaða sími?

Myndarlegi maðurinn gaf mér dagbók í gær. Mér finnst voða gott að eiga svona skruddu yfir árið, punkta niður hvað eina sem mér dettur í hug, en sem betur fer hef ég líka vit á að fleygja þeim þegar notagildið er búið.

Einu sinni fór ég í skólann en gleymdi skólatöskunni heima.
Ég hef líka farið með erlenda pennavinkonu mína í Bláa Lónið og gleymt sundfötunum mínum heima. Uppgvötaði það að sjálfsögðu ekki fyrr en ég var búin að týna af mér hverja spjör og stóð allsber inní klefa. Sem minnir mig reyndar á það að síðast þegar ég fór í Sundhöllina og var komin undir sturtuna, þá uppgvötaði ég að ég hafði gleymt sundfötunum í klefanum. Þegar ég fór aftur til að sækja þau uppgvötaði ég svo að ég hafði farið í allt annann klefa en lykilinn "minn" gekk að. Sem betur fer hafði ég ekki gleymt handklæðunum í læstum klefanum líka.
Ég var líka fremur gjörn á að gleyma lyklunum mínum í útidyrahurðinni í Hólaberginu, föður mínum til mikillar gleði. Tók mig mörg ár að venja mig af því. Þegar það loksins tókst byrjaði ég að gleyma þeim heima, föður mínum til mikillar gleði, sér í lagi þegar ég var að koma heim af djamminu. Vorum reyndar komin með ágætis sístem sem ýmist snérist um að hann fleygði húslyklum hálfsofandi út um gluggann þegar ég dinglaði, eða það var tiltækt skrúfjárn rétt innann við þvottahúsgluggan svo ég gæti skreiðst þar inn.
Í dag tek ég þetta nánast allt út á síma-appartinu mínu. Blessunarlega veit ég sjaldnast hvar hann er og heyri því í fæstum tilvikum í honum þegar hann hringir. Hins vegar finnst mér alveg skelfileg vanræksla af hálfu kærastans, að gefa mér ekki skýr svör í hvert skipti sem ég spyr: hvar er síminn minn??

Annars held ég ég sé bara nokkuð minnug. Man altjént ekki eftir öðru.

Á nýju ári

Búin að lesa gommu af bókum, borða glás af afgöngum og drekka doldið af rauðvíni. Búin að vera á biluðum bíl seint um kvöld, fara til KEF og fá kisudagatal að gjöf. Búin að hitta Ameríska pennavinkonu sem ég kyntist snemma á síðasta áratug, fara í leikhús og hitta öll systkyni mín sem búsett eru á Íslandi. Búin að fara í söngtíma, á tónleika og gefa tánudd. Búin að fara á mótmæli, í atvinnuviðtal og vera andvaka. Ég er þó sem betur fer ekki búin að taka niður jólaskrautið. Ég setti að vísu aldrei upp nema brota-brot af því. Restin er í opnum jólaskrauts-kassanum á stofugólfinu. Það er þó framför frá því jólunum á undan. Mamma reddaði þeim með því að gefa mér 3 jóladúka, sem reyndist það eina jólalega sem prýddi íbúðina mína það árið. Sem er skondið með tilliti til þess að ég er alls ekki hrifin af dúkum. Set þá alfarið undir sama hatt og mottur. Piff!

Finnst annars verst að hafa ekki komið ljósahringnum mínum upp fyrir jólin. Ljósahringurinn sem pabbi kaupti fyrir mig forðum daga þegar ljósaserían sem átti að prýða herbergið mitt bræddi yfir. Ljósahringurinn sem fer alltaf upp, sama hvar ég bý, og fær að hanga fram yfir afmælið mitt. Ljósahringurinn sem þessi jólin neitaði að kveikja á einni einustu af hinum marglitu perum. Svona hlutir geta væntanlega gerst þegar pabbar manns hanga í útlöndum yfir jólin. Piff!

sunnudagur, 11. janúar 2009

Sann-girni

Gunnar Páll Pálsson þiggur 1.750.000,- í laun á mánuði fyrir formennsku VR.
Hér eru launataxtar VR sem taka gildi 1.mars nk.