þriðjudagur, 27. febrúar 2018

Af hverju hún en ekki ég?

Keyrði Sæbrautina lengri leið en vanalega eftir vinnu. Lagði bílnum á planinu við World Class og labbaði heim. Sá myndarlegi var fundum vafinn allan daginn svo lítill tími gafst til bílaskipta. Ég ætla rétt að vona að hann komi á bílnum heim í staðinn fyrir að labba aftur til baka. Sjálf fékk ég einu sinni lánaðan bíl hjá þáverandi kærasta til að fara í vinnuna. Eftir vinnu tók ég svo strætó heim, löngu búin að gleyma því að ég var á bíl. 

Síðan eru liðin mörg ár eins og segir í laginu en þar sem ég kem gangandi Samtúnið tek ég eftir einhverju sem líkist blöndu af barnakerru og ruslatunnu á hjólum, þið vitið, svona eins og götusóparar eru með, bara minna. Sem ég er að hugsa þetta sé ég mann í appelsínugulum kraftgalla koma gangandi á móti mér og hugsa fjandakornið, eru þeir nú farnir að sópa göturnar í grennd við Borgartúnið? Nema hvað, maðurinn í appelsínugula gallanum fer inn í eitt húsið og pokakerran heldur áfram að standa við innkeyrsluna að okkar húsi. Ég staldra við hana í 15 sekúndur, sný mér til að labba inn innkeyrsluna og heyri glamur í flöskum. Sé konu bogra yfir öskutunnurnar hjá nágrönnunum. Er ég nálgast húsið skellir hún lokinu á tunnunni aftur, horfist í augu við mig og tekur strikið út heimkeyrsluna. Ég staldra við og hugsa með mér að ef konan, sem var vel dúðuð í úlpu, regnbuxum, með húfu og trefil fyrir neðri part andlits, ætlaði sér að fara að róta í mínum tunnum þá ætlaði ég að eiga við hana vel valin orð. Konan, sem var austurlensk til augnanna (augun það eina sem ekki var dúðað), dembdi hinsvegar hvíta plastpokanum sem hún var með í höndunum á pokakerrunna og arkaði burt.

Inn komin og farin úr rauðu úlpunni átta ég mig á því að konan hlýtur að hafa verið búin að fara í gegnum tunnurnar okkar. Þar sem við erum dugleg að flokka (sér í lagi betri helmingurinn) er ólíklegt að hún hafi haft mikið uppúr því. Ætli það hafi samt verið eitthvað sem nýtanlegt var? Af hverju ætli nágrannakona mín, sem er á mínum aldri og hefur búið í Danmörku til fjölda ára, hendi flöskum? Flokkar hún í alvöru ekki ruslið sitt? Hvað hefði ég sagt við asísku konuna ef hún hefði verið að róta í mínum tunnum þegar mig bar að? Hefði ég sagt eitthvað ef á hefði reynt? Af hverju er hún að róta í hemilistunnum? Er gróðravon í rusli Íslendinga eða á fólk virkilega svona bágt hér? Er ónotatilfinningin sem í mér situr sprottin af því að hugsanlega hafi einhver farið í gegnum ruslið mitt eða af því að einhver sé á þeim stað í lífi sínu staddur að hafa farið í gegnum ruslið mitt? 

Forréttindi eru það vissulega að einhver annar en ég róti í því sem ég kalla rusl en já, hvenær varð ég sú forréttindapía? Af hverju ég en ekki hún? Hafið þið spáð í því?

sunnudagur, 11. febrúar 2018

Bókabuska

Sit við borðstofuborðið. Var að taka eyrnalokkana úr mér. Þeir liggja núna við hliðina á hringnum sem ég var með áður en ég reif hann af mér. Eiginmaðurinn liggur á sófanum langt sokkinn í nýjasta Eddumálið hennar Jónínu. Hann gaf sér þó tíma blessaður til að flysja og skera kartöflur sem nú lúra í ofninum. Eldamennskan er á hans höndum í kvöld. Milli þess sem hann liggur á sófanum.

Sjálf er ég með nefið ofan í tveimur bókum, var að fá lánaðar 3 bækur og get ekki beðið eftir að komast í nýjasta Eddumálið hennar Jónínu. Sit sem fyrr segir við borðstofuborðið. Hlusta á allskonar góða músík eins og t.d. þessa (þið verðið að smella á þessa ef þið viljið fá hlustunardæmi). Ætti að vera að gera heimadæmin fyrir frönsku annað kvöld en, æ, ég nenni því ekki. Sötra þess í stað hvítvín úr vel kældri flösku sem lúrir í snjóbing á veröndinni. Rembist við að blogga eins og síðasti Móhíkaninn og nei, með því er ég ekki að segja að síðasti Móhíkaninn hafi bloggað heldur er ég að segja að mér líður eins og... æ, gleymið því, það les hvort eð er enginn blogg lengur. Að minnsta kosti ekki svona sjálfhverfublogg. Einu sinni voru þau stunduð af kappi en í dag er það sjálftakan sem tekið hefur yfir, eða selfies þið vitið. Sjálf hef ég aldrei komist almennilega uppá lagið með þessa sjálftöku, er miklu betri í að blogga, eða hvað veit ég, aldrei hefur neinn sagt mér að ég sé betri í að blogga heldur en að taka sjálfu. Sannast sagna hefur ekki nokkur sála sagt að ég sé góð að blogga, nema kannski eiginmaðurinn, en fjandakornið, af hverju ætti ég að hlusta á hann, ekki eins og hann sé óhlutdrægur.

Jæja, annars gleymdi karlinn sér alveg yfir Eddu (allt Jónínu að kenna) og kartöflurnar hálfbrunnu yfir en hér er annað tóndæmi í boði frúarinnar (jájá, þið verðið bara að þrýsta á hér til að fá næsta hlustunardæmi, mæli samt alveg með því það er svo ljúft)

Á meðan drjúgur meirihluti fésbúkara er að reyna að sjá sig sjálft í öðru kyni þá vildi ég vita hvaða Disney persóna ég væri. Kemur kannski á óvart, og kannski ekki, þá var ég dæmd Öskubuska. Í gær fór ég í góðan göngutúr í kuldanum og labbaði fram á þennan skó
ekki veit ég með prinsinn hennar þessarar Öskubusku en ef þið rekist á hana eruð þið þá til í að segja henni að hann er ekki að leita að henni og að hælaskórinn hennar er á Kirkjuteigi?