fimmtudagur, 6. september 2012

Á morgun, á morgun...

Stóð í baðkarinu áðan og furðaði mig á hvað vatnsbunan var heit. Alveg þar til ég uppgvötaði að kraninn var stilltur á 50, þá fyrst fann ég að það var brennandi heitt en ekki bara óvenju heitt. Meira hvað maður er ósjálfbjarga þegar betri helmingurin bregður sér af bæ. Ligg í skítakulda í bælinu og næ ekki að halda hita á sjálfri mér. Get heldur ekki horft á sjónvarpið því það er stillt á dvd-ið sem er ágætt, ég skelf þá bara af kulda en ekki hræðslu líka. Væri vís með að horfa á e-ð skerí glæpastöff ef ég kynni að gera e-ð meira en bara kveikja og slökkva á bannsettu viðtækinu.

Á morgun kemur sá myndarlegi heim. Ætla að gefa honum upphitað lasanja og senda hann með soninn beina leið á Ísland - Noregur. Þeir feðgar munu áreiðanlega njóta vel, hvorugur er áhugamaður um fótbolta.

Djöfuls skítakuldi. Ætti ég að sofa í sloppnum?

þriðjudagur, 4. september 2012

Haus á káli er blóm

Vorum orðin úrkula vonar um að fá nokkurt blómkál í nýja matjurtagarðinn. Höfðum tekið eftir sniglum sem snigluðust í garðinum fyrr í sumar og töldum okkur trú um, í afar svörtu svartsýniskasti, að óværan sem sumir vilja helst leggja sér til munns með hvítlauk, hefði haft okkur, og blómkálið, undir. Vorum því kampakát er við uppgvötuðum að tveir blómkálshausar höfðu sprottið upp, annar með miklum vaxtakippum og skiljum við nú loks af hverju blómkál heitir BLÓMkál



Sá ofvaxni var saxaður í ljúffenga kartöflublómkálssúpu sem við höfðum áður prófað og vissum að var góð. Fyrir hinn hausinn setti ég undir mig hausinn og lagðist í uppskriftaflettingar. Útkoman varð þessi baka


Blómkálið aftur í kartöflufylgd ásamt papriku, beikoni, Camembert, eggjum og mjólk.


Nú hefur þriðja blómkálið rekið upp hausinn og bíður eftir að komast inn í eldhús til okkar. Lumar e-r lesandi hér á girnilegri blómkálsuppskrift sem ekki krefst kartöflu?