fimmtudagur, 13. nóvember 2008

Ung-rotta

Síðustu helgi lánaði ég Ólafíu frænku minni og Arnóri manninum hennar íbúðina mína. Arnór var spenntur að komast á músaveiðar, svo ég sá mér hag í því að hafa þau þar, meðan myndarlegi maðurinn myndi bera mig á höndum sér heima hjá sér. Þau gistu þó ekki nema eina nótt, því eftir að hafa dregið eldavélina fram á mitt gólf og opnað, brá Arnóri hressilega, við mikla kátínu Ólafíu, við að sjá á eftir rottu-hala. Á mánudeginum drattaðist ég því loksins til að hringja í Borgina og biðja um meindýraeyði, sem brást snarlega við og kom upp massívum gildrum hjá mér, með eðal dönsku marsípani sem beitu. Það snar-virkaði þar sem rottan fannst snar-dauð í annari gildrunni deginum eftir. Geðþekki meindýraeyðirinn frá Borginni kom svo og hirti hana, mér til mikillar ánægju, og gladdi mig enn meir er hann fræddi mig á því, að músa- og rottu-veiðar væri þjónusta sem ég væri þegar búin að borga fyrir með fasteignagjöldunum.
Í gær hófst svo tiltektin. Ég prísaði mig sæla að vera hvorki klígju- né kúgunargjörn. Lyktin af uppsöfnuðum rottu-saur er vægast sagt svívirðileg.
Myndarlegi maðurinn var sætur að vanda og kom með mat handa mér. Meðan ég þreif dundaði hann sér svo við að lagfæra aðra gardínuna, í samvinnu við köttinn sem hafði aflagað hana vikunni á undann. Þar sem myndarlegi maðurinn er með eindæmum laginn, gerði hann sér lítið fyrir og klippti út lítil, sæt typpi handa mér í "nýju" gardínuna mína.


Engin ummæli: