Sl. föstudag labbaði ég heim úr vinnunni með uppsagnarbréf í vasanum. Helgin var engu að síður ekki alslæm. Ég fékk mér rauðvín með bestu vinkonu minni og við fórum út að dansa. Foreldrar mínir gerðu sitt besta til að pakka mér inn í hughreystingarbómul. Ég talaði lengi við systur mína í Horsens. Klappaði kettinum. Fór í langann göngutúr. Horfði á gamla, hugljúfa mynd. Knúsaði myndarlega manninn. Fékk smakk og grænann sun-lolly. Eldaði mat.
Ég er búin að segja það upphátt ég ætli ekki að láta kreppubölsýni ná tökum á mér. Mig langaði samt að halda áfram að sofa í morgun, og spurði kærastann af hverju það væri ekki aftur komin helgi. Hann svaraði einfaldlega; af því þér finnst svo gaman að mánudögum. Og það er alveg rétt, ég hef gaman af mánudögum. Ég hef vinnu næstu 3 mánuðina, fæ útborguð laun og tíma til að leita mér að annari vinnu. Hvað síðan tekur við hef ég ekki nokkura hugmynd. Ekki frekar en nokkur annar á Íslandi í dag. Það sem ég þó veit með vissu er að ég er langt í frá ein; ég á fjölskyldu sem stendur saman í raun, frábæra vini, sætasta kærastann og kött sem malar hátt þegar ég strýk honum. Og ef út í það er farið, þá þykir mér pasta rosalega gott.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli