þriðjudagur, 25. nóvember 2008

Þjóðlaga-tónleikar

Í gær söng ég í fyrsta skipti opinberlega, þ.e.a.s. á tónleikum í skólanum mínum. Það var húsfyllir af foreldrum, öfum & ömmum, systkynum & vinum. 66 lög voru flutt - 2 á mann. Ég var fjórða síðust. Ég var líka skræfa & bauð ekki neinum. Ég lét að vísu kærastann vita en sagði honum jafnframt honum væri ekki boðið. Kærastinn er sanngjarn maður, & samþykti þau rök mín að ég myndi að öllum líkindum ekki koma nokkru hljóði upp úr kokinu á mér af stressi, ef hann væri meðal áheyrenda. Bauð mér í ljúffengann mat & lánaði mér kaggann sinn svo ég þyrfti ekki að tipplast á milli húsa, uppstríluð á hælum.
Ég gleymdi heilu orði í fyrra laginu en náði að redda mér fyrir horn með uppfyllingu á allt öðru orði. Ég skalf af skelfingu í sálartetrinu, en ákvað eftir fyrra erindið í fyrra laginu það sæi það varla nokkur maður. Náði jafnvel að skila túlkuninni í seinna laginu, þrátt fyrir maður eigi að standa þráðbeinn og ég er ekki alveg enn þá búin að átta mig á hvernig maður fer að því að láta túlkunina leka með. Skemmtilegt að finna hvernig stress sem maður telur sjálfum sér trú um að muni yfirbuga mann, gefur manni svo kraft þegar á reynir. Háu tónarnir sem ég hafði mestar áhyggjur af að ná ekki, og verða mér til óbærilegrar skammar, voru svo ekkert vandamál er á reyndi.

Ég greip svo smotterís sárabót með mér fyrir kærastann; hjartalagaða piparköku af kaffiborðinu eftir tónleikana. Mér fannst það voða sætt af mér.

Engin ummæli: