Ég hef lagt mig í lima við að vera verulega stinamjúk við hjásvæfuna. Klappa honum, kreista hann og fullvissa hann um hann sé sætasti köttur í heimi. Ég hefi nefnilega samviskubit yfir að loka blessaða skepnuna svona inni. Mér varð ljóst er ég kom heim í gær, að þessi stinamýkt mín er greinilega hætt að virka og ódýra rúmfatalagers-gardínan mín fékk að gjalda fyrir það.
Ég veit ekki alveg hvernig ég á að færa pabba tíðindin. Hann hafði jú fyrir því að föndra doldið við gardínurnar til að koma þeim fyrir í gluggunum hjá mér. Annars sagði kærastinn það væri ekki mikið mál fyrir mig að setja nýtt í staðinn fyrir þetta aflagaða, svona fyrst það er kreppa eins og hann orðaði það. Það sem kærastann grunar þó örugglega er, að það er langþægilegast fyrir mig að hann geri það fyrir mig. Enda leggst föndur afskaplega illa í mitt geð, sem er víst nógu tæpt fyrir.
Svona lítur hún svo út niðurdregin
Já, verulega döpur. Þrátt fyrir að vera ekki skemmt, gat ég með engu móti skammað blessaða lufsuna. Ekki myndi ég vilja vera neydd til að míga í appelsínugult þvottafat, og verða að hírast innilokuð með mús, sem skellihlær að manni allann liðlangann daginn.
Best að fara heim og breiða mjúku sængina mína yfir hausinn á okkur báðum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli