miðvikudagur, 5. nóvember 2008

Hætt'essu bulli

Sem fyrr vaknaði ég við Morgunútvarp Rásar 2 í bóli kærastans. Viðtalið við hana nöfnu mína, Sigurbjörgu Árnadóttur, var með því betra sem ég hef heyrt lengi. Sigurbjörg þessi bjó í Finnlandi er kreppan mikla reið yfir þar. Hún talaði ekki um neina Finnska skyndilausn né aðrar skyndilausnir. Hún talaði opinskátt um þær hörmungar sem hún upplifði í Finnlandi. Og hún var beinskeytt í orðum sínum til Íslendinga. Og ég tek heilshugar undir með henni. Að tími sé kominn til að hætta þessu bulli og fara að búa sig undir alvöruna fyrir alvöru.
Stjórnmálafólkið okkar þarf að átta sig á því að þau eru ekki háu herrar okkar. Við erum atvinnurekendur þeirra. Og sem atvinnurekendur eigum við rétt á að vita sannleikann um fyrirtækið okkar, hver staðan raunverulega er, hvað sé raunverulega í stöðunni og hvert eigi að halda. Sem atvinnurekendur eigum við rétt á að vita hvaða starfsmaður stendur sig vel, hvaða starfsmaður stendur sig illa, og reka þann sem ítrekað brýtur gegn hagsmunum fyrirtækisins.
Sem þjóð eigum við rétt á að komið sé fram við okkur eins og fólk. Ekki bara að hanga á brúninni í óvissu og hræðslu um hversu lengi við höngum, og hversu langt og harkalegt fallið verður þegar við missum takið.

Ég er þess fyrir utan afskaplega fegin að Barack Obama er verðandi forseti Bandaríkjana.

Engin ummæli: