fimmtudagur, 6. nóvember 2008

Bót

Heyrði í útvarpinu í morgun að atvinnuleysisbætur dygðu ekki fyrir útgjöldum heimilanna. Því miður eru þetta ekki nýjar fréttir, heldur gamlar. Þar sem ég er uppsögð ákvað ég mér til hughreystingar, að skoða hverjar grunnatvinnuleysisbæturnar eru. Og viti menn, þær eru Kr. 136.023,- á mánuði. Lítur alls ekki sem verst út. Fyrir mig þ.e.a.s. Þegar mín mánaðarlegu útgjöld eru dregin frá þessu er ég bara tæpum 10.000,- í mínus. Ég myndi að sjálfsögðu kanna möguleikann á að skorast undan mánaðarlegu afborguninni á rándýra áhugamálinu mínu, sem er auðvita ekkert nema munaður. Með því ætti ég að koma út í plús um tæpar 20.000,- og það er feikinóg til að metta minn maga með pasta yfir mánuðinn. Ég er nefnilega svo lánsöm að hafa fyrir mörgum árum tekið ákvörðun um að börn vilji ég ekki eignast. Ég hef því einungis kattarlufsu aukalega á mínu framfæri, sem blessunarlega hefur ávalt verið fremur matgrannur. Þess fyrir utan á ég sætasta kærastann sem vafalítið heldur áfram að vera duglegur að bjóða mér í mat, svo ég kem til með að fá fjölbreyttara fæði en hveiti og egg, og spara mér nokkrar verðlausar krónur fyrir vikið. Þess þess fyrir utan munu foreldrar mínir aldrei geta horft upp á að ég líði skort. Ég sé mér því ekki annað fært en horfa áfram bjartsýnisaugum til framtíðar. Enda er ég ekki atvinnulaus. Enn. Og kærastinn fær kossana fríkeypis. Enn.

Ath. reikniforsendur í ofangreindri færslu eiga einungis við ný-afstaðin mánaðarmót.

Engin ummæli: