Mér þótti ræða Illuga á Austurvelli sl. laugardag góð. Þar orðaði hann mínar hugsanir um önnur mánaðarmót og fleiri sem fengju reisupassann í vinnunni. Fleiri sem horfa upp á að eiga ekki fyrir mánaðarlegum útgjöldum. Fleiri sem fóru heim til sín sl. föstudag með verri kvíðahnút í maganum en var þar fyrir.
Ég er því miður ekki undrandi á þörf fjölmiðla til að útlista því sérstaklega að einn maður hafi mætt með eggjabakka til að grýta í alþingishúsið. Ég var heldur ekki hissa á niðrandi spurningu fréttamanns RÚV um hvort hægt væri að mótmæla án lausnar. Ég er hins vegar reið yfir að ríkisstjórninni finnist sjálfsagt að sitja áfram og valtra yfir þjóðina, án nokkurrar sýnilegrar lausnar!
Desember er runninn upp og miskunnsami samverjinn Hagkaup býður jólin á láni. Ég vona innilega að þjóðin reyni frekar að halda að sér höndum, og halda þau jól sem hún hefur efni á. Ég vona enn fremur að græðgishugtak Hagkaupa um opnun allan sólarhringinn í Skeifunni, í miðri kreppu þar sem bjóða þarf þjóðinni lán til að versla, springi eins og 1000 grýtt fúlegg.
Arnarhóll í dag kl. 15:00
Engin ummæli:
Skrifa ummæli