föstudagur, 19. desember 2008

TiVi

Foreldrarnir eru í heimsókn hjá systur minni í útlöndum. Fóru fyrir viku og verða yfir áramót. Á meðan nýt ég þeirra þæginda að hafa bifreiðina þeirra til umráða. Þau lánuðu mér líka sjónvarpið sitt, sem er eins og meðalstór tölvuskjár með innbyggðum DVD-spilara. Segir maður annars innbyggður í þessu tilfelli? Í gær datt mér svo í hug að kveikja á apparatinu. Sá heilann þátt af 30 rock. Mér fannst hann leiðinlegur. Mér hefur samt fundist hann skemmtilegur þegar ég sé hann í bútum og pörtum hjá myndarlega manninum. Ég altjént lagði ekki í meira og slökkti. Lagðist í heitt freyðibað í staðinn. Mundi svo eftir DVD-diskunum sem ég á í kompunni. Svo ég ákvað að gefa apparatinu annann sjéns. Sem var ágætt því mér leiddist myndefnið sko ekki.
Þar sem ég sat í bleika sloppnum hennar mömmu, í rauða ruggustólnum hennar ömmu, og horfði á tilvonandi eiginmann minn dilla rassinum, varð mér hugsað til þess þegar fólk leigði ekki bara vídjó-spólur, heldur vídjó-tæki líka. Munið þið ekki eftir stóru, svörtu harð-töskunum sem voru utan um þau? Ég man vel eftir því þegar foreldrarnir komu heim með svona tösku í fyrsta skipti, haug af spólum, spenningnum og gleðinni og eftirvæntingunni, og fjölskyldan samanþjöppuð alla helgina að komast yfir glápið.

Í morgun átti ég erindi í gamla fjölbrautarskólann minn. Eina breytingin þar innandyra var konan á skrifstofunni, hún er komin með alveg snjóhvítt hár. Fór henni reyndar mjög vel.
Annars var það bara ég sem hafði breyst.

Engin ummæli: