Á sunnudaginn heimsóttum við Pétur ömmu mína sem býr í þjónustuíbúð í Seljahverfi. Meðan á heimsókn okkar stóð bönkuðu tvær nunnur upp á til að færa ömmu minni sælgætispoka. Fallegt af þeim að gleðja gamlingjana, en mér skildist á ömmu minni þetta væri árlegur viðburður.
Þær töluðu báðar ensku. Önnur þeirra lyktaði af hvítlauk. Hún var líka skrafhreifnari. Hún spurði Pétur hvort hann væri sonur ömmu minnar. Ég tók af honum svarið og sagðist vera sonardóttir hennar. Hún spurði hvort við ættum börn og ég sagði að ég ætti ekki börn. Hún sagðist ætla að biðja fyrir mér & Pétri svo okkur myndi auðnast barna. Ég nennti ekki að segja henni ég kærði mig ekki um nein börn, svo ég kreisti fram að ég tel kurteislegt bros og hummaði hana út um dyrnar.
Mér finnst fyndið að kona sem hvorki vill stunda kynlíf né eignast börn sjálf, skuli ætla að biðja til æðri máttarvalda mér til handa í barna - jah, láni.. Ég ætti jafnvel að hafa samviskubit yfir því að aumingjans konan eyði brot af tíma sínum í þetta en æj, verði henni að því. Svarta karamellan í sælgætispokanum frá þeim var góð.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli