mánudagur, 21. mars 2011

Lakkrís og grjónagrautur.

Var komin heim úr vinnunni á sómasamlegum tíma og labbaði út í búð að kaupa sláturkepp. Kom heim dulbúin sem snjókarl. Grjónagrautur og grátt slátur er með því besta sem ég fæ. Þó er ég ekki hrifin af mjólk, fæ eiginlega viðbjóðshroll af tilhugsuninni einni um að drekka hana. Pabba finnst grjónagrautur líka voðalega góður. Þó borðar hann ekki hrísgrjón, setur þau c.a. undir sama hatt og pasta sem er ekki matur í hans huga. Ekki hef ég hugmynd um hvort Ólafíu systurdóttur minni þyki grjónagrautur jafn góður og okkur pabba, en henni þykja Bingókúlur góðar. Þó borðar hún ekki lakkrís. Sem er reyndar óskiljanlegt fyrirbæri með öllu í okkar fjölskyldu. Hún er það lík foreldrum sínum að það er varla smuga að það hafi verið ruglast á barni á fæðingardeildinni. Líklegra að hún þjáist af e-r heilkenni eða sjaldgæfum sjúkdóm sem orsakar þessa lakkrís-afundu.

Elska annars þennan snjó. Elska að horfa út um gluggana á þessa fegurð sem snjókoma er. Elska birtuna sem kemur af snjónum. Og já ég elska að skafa af bílnum, labba í ómokuðum snjó og vera með hárið fullt af köldum, blautum snjó eftir labbitúr.

6 ummæli:

Ólafía sagði...

ójú.. mér þykir grjónagrautur sko jafn góður og þér og afa! Börnin mín elska líka grjónagraut.. fékk vatn í munninn við að lesa þetta og það er mjög líklegt að það verði grjónagrautur í matinn í kvöld! hehe spurning hvort þetta sé líka í ættinni víst að afi borðar ekki hrísgrjón nema í grjónagraut og þú ekki mjólk nema í grjónagraut alveg einsog ég borða ekki lakkrís nema í bingókúlum?? kannski að öll ættinn þjáist af sjaldgæfum sjúkdómi ;)

p.s. ég elska líka snjóinn!

Frú Sigurbjörg sagði...

Góður punktur Fían mín, líklegast er að ákveðin matarsérviska sé sjúkdómur sem gengið hafi í erfðir. Hins vegar hefur lakkrísheilkennið ekki slegið neinn nema þig, og það verður ekki frá þér tekið, né sýndur skilningur. Aldrei. Bara óskiljanlegt.

Ég kætist þó mest yfir því sem við eigum sameiginlegt; grjónagrauturinn, snjórinn og blóðtengslin : )

ella sagði...

Þetta er talsvert fyndið! Þetta með hvað er gott og ekki gott. Nánast sami hluturinn stundum.

Frú Sigurbjörg sagði...

Já, það er margt skrýtið í kýrhausnum. Er e-ð sem þú borðar en samt ekki? Eða öfugt?

ella sagði...

Tja, lárviðarlauf og dill höfða ekki til mín. Mér finnst samt gott hrossakjöt sem maðurinn minn eldar á sérstakan hátt með lárviðarlaufi og mér finnst graflax fínn.

Nafnlaus sagði...

Fífan mín vildi lengst af ekki dill en svo fór hún í fyrra í kirtlatöku og þá allt í einu hætti henni að þykja það vont. Mjög spes.