Sambýlingurinn hefur vart látið sjá sig. Ég sé á matarskálinni að einhver étur af henni og hef verið að vona það sé hann. Hef samt haft áhyggjur af því hann sé hugsanlega fluttur að heimann, búinn að taka sér búsetu annars staðar og Skaftahlíðin sé eingöngu orðin að hverju öðru útibúi, sem ég er reyndar viss um hann eigi nokkur þar sem skepnan er með eindæmum mannelsk. Hef einnig velt því fyrir mér hvort tíð fjarvera mín af heimilinu eigi þar hlut að máli.
Ég varð því mjög kát að sjá skepnuna koma vælandi á móti mér er ég arkaði Skaftahlíðina heim rétt eftir miðnætti í fyrrakvöld. Ekki bara fylgdi hann mér inn og fékk sér smá snarl, heldur kúrði hann sig upp við mig í rúminu og ég sofnaði með malið í eyrunum – vaknaði svo með skepnuna til fóta. Í gærkveldi er ég kom heim á svipuðum tíma eftir kaffikjaft með indælum vinkonum var skepnan þegar sofnuð í rúminu.
Eins og mér leiðist þegar kvikindið fer á brölt í rúminu um miðjar nætur, og ýtir loppunni á nefið á mér til að vekja mig, veit ég þó fátt indælla en mjúkann kisukroppinn og háa malið hans Dags míns.
Ég ætla samt að kúra hjá hjásvæfunni í kvöld – veit að hann er glaður að vera einstaka sinnum tekinn fram fyrir kött.
2 ummæli:
Það rifjast margt upp hjá mér þegar Skaftahlíðin er nefnd því ég bjó í 11 yndisleg ár í risinu á Skaftahlíð 40 og báðar dætur mínar fæddust á meðan við bjuggum þar.
Eigðu góða helgi með hjásvæfunum þínum. Notaleg tilhugsun að það sé slegist um að kúra hjá manni:)
Þrátt fyrir að hafa nú þegar búið 1,5 ár í Skaftahlíðinni, hef ég aldrei gengið upp götuna mína. Ég ákvað því að tími væri tilkominn sl. laugardag og kíkja á nr. 40 í leiðinni. Mér finnst botnlanginn þarna upp eftir mjög skemmtilegur og nr. 40 svo skemmtilega staðsett, fyrir miðju í enda botnlangans:)
Ég bý annars í Sigvaldablokkinni, á jarðhæð og uni mér vel þar.
Skrifa ummæli