laugardagur, 18. mars 2017

Uppskrift að príma laugardagskvöldi

Steytið rósmarín og rósapipar og dembið útí heita olíu á pönnu. Steikið þunnt skorið epli og endið steikinguna með teskeið af hunangi. Stappið gráðaost og hrærið með sýrðum rjóma. Smyrjið ostablöndunni á little gem salat, setjið steiktu eplin og smátt saxaðan rauðlauk yfir

















Kveikið á öllum kertunum í betri stofunni, bregðið rómantískri tónlist á fóninn, skjótið upp tappanum úr freyðivínsflösku sem einhver stúlkan kom með í kampavínspartý forðum daga og plantið myndarlegum eiginmanni í sófann













Eftir forrétt og freyðivín bað ég þann myndarlega um að taka upp rauðvínsflöskuna sem ég keypti fyrr í dag, þessa þarna sem einhver Dominique og Eymar mæltu með þarna um árið, í ljós kom þessi tappi (þetta var jú 2007)

















Steikið lambalundir og kryddið með salti og pipar. Kælið. Setjið hindber, balsamedik og hunang í matvinnsluvél og maukið. Piprið og bætið ólífuolíu saman við. Maukið enn frekar. Blandið blönduðu salati, furuhnetum, niðurskornum eplum, hindberjum og niðursneiddum lambalundum á disk

















Hindberjasósan yfir, rauðvín í glas, skála við karlinn, bon appetit!

Engin ummæli: