Búin að lesa gommu af bókum, borða glás af afgöngum og drekka doldið af rauðvíni. Búin að vera á biluðum bíl seint um kvöld, fara til KEF og fá kisudagatal að gjöf. Búin að hitta Ameríska pennavinkonu sem ég kyntist snemma á síðasta áratug, fara í leikhús og hitta öll systkyni mín sem búsett eru á Íslandi. Búin að fara í söngtíma, á tónleika og gefa tánudd. Búin að fara á mótmæli, í atvinnuviðtal og vera andvaka. Ég er þó sem betur fer ekki búin að taka niður jólaskrautið. Ég setti að vísu aldrei upp nema brota-brot af því. Restin er í opnum jólaskrauts-kassanum á stofugólfinu. Það er þó framför frá því jólunum á undan. Mamma reddaði þeim með því að gefa mér 3 jóladúka, sem reyndist það eina jólalega sem prýddi íbúðina mína það árið. Sem er skondið með tilliti til þess að ég er alls ekki hrifin af dúkum. Set þá alfarið undir sama hatt og mottur. Piff!
Finnst annars verst að hafa ekki komið ljósahringnum mínum upp fyrir jólin. Ljósahringurinn sem pabbi kaupti fyrir mig forðum daga þegar ljósaserían sem átti að prýða herbergið mitt bræddi yfir. Ljósahringurinn sem fer alltaf upp, sama hvar ég bý, og fær að hanga fram yfir afmælið mitt. Ljósahringurinn sem þessi jólin neitaði að kveikja á einni einustu af hinum marglitu perum. Svona hlutir geta væntanlega gerst þegar pabbar manns hanga í útlöndum yfir jólin. Piff!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli