þriðjudagur, 13. janúar 2009

Hvaða sími?

Myndarlegi maðurinn gaf mér dagbók í gær. Mér finnst voða gott að eiga svona skruddu yfir árið, punkta niður hvað eina sem mér dettur í hug, en sem betur fer hef ég líka vit á að fleygja þeim þegar notagildið er búið.

Einu sinni fór ég í skólann en gleymdi skólatöskunni heima.
Ég hef líka farið með erlenda pennavinkonu mína í Bláa Lónið og gleymt sundfötunum mínum heima. Uppgvötaði það að sjálfsögðu ekki fyrr en ég var búin að týna af mér hverja spjör og stóð allsber inní klefa. Sem minnir mig reyndar á það að síðast þegar ég fór í Sundhöllina og var komin undir sturtuna, þá uppgvötaði ég að ég hafði gleymt sundfötunum í klefanum. Þegar ég fór aftur til að sækja þau uppgvötaði ég svo að ég hafði farið í allt annann klefa en lykilinn "minn" gekk að. Sem betur fer hafði ég ekki gleymt handklæðunum í læstum klefanum líka.
Ég var líka fremur gjörn á að gleyma lyklunum mínum í útidyrahurðinni í Hólaberginu, föður mínum til mikillar gleði. Tók mig mörg ár að venja mig af því. Þegar það loksins tókst byrjaði ég að gleyma þeim heima, föður mínum til mikillar gleði, sér í lagi þegar ég var að koma heim af djamminu. Vorum reyndar komin með ágætis sístem sem ýmist snérist um að hann fleygði húslyklum hálfsofandi út um gluggann þegar ég dinglaði, eða það var tiltækt skrúfjárn rétt innann við þvottahúsgluggan svo ég gæti skreiðst þar inn.
Í dag tek ég þetta nánast allt út á síma-appartinu mínu. Blessunarlega veit ég sjaldnast hvar hann er og heyri því í fæstum tilvikum í honum þegar hann hringir. Hins vegar finnst mér alveg skelfileg vanræksla af hálfu kærastans, að gefa mér ekki skýr svör í hvert skipti sem ég spyr: hvar er síminn minn??

Annars held ég ég sé bara nokkuð minnug. Man altjént ekki eftir öðru.

Engin ummæli: