Eftir ótal marga góða veðurdaga er haustið komið. Það er ekki alslæmt, en auðvitað hábölvað.
Um daginn eyddi ég rúmlega fjórum dögum á spítala. Allan tímannn sem ég þrammaði spítalaganginn fram og aftur, aftur og fram, skein sól í heiðri. Ef til vill var það kappsemi í bland við jákvæðni, en ég gat ekki beðið eftir að komast heim og anda að mér fersku súrefni á væntanlegum, daglegum heilsubótagöngum.
Síðan ég kom heim hef ég ekki farið út fyrir hússins dyr. Jæja, ég lýg því reyndar, í gær fór faðir minn með mig út í búð. Við fórum á bíl. Veðrið var reyndar prýðilegt. Ég var því staðráðin í að fara ÚT í göngutúr í dag og þá, auðvitað, míglekrignir hann.
Ekki að frúin sitji auðum höndum, seiseinei, fingurnir eru í stífri flettiþjálfun. Fyrst Landspítalinn var svo rausnarlegur að senda frúnna í annað lestrarfrí á sama ári, þá ber að axla þeirri skyldu af alúð og einurð.
Líklega má þakka fyrir að krabbferill frúarinnar hafi hingað til ekki náð að teygja anga sína í dýrmæta sumarmánuði, nóg er nú lagt á hinn meðal íslending að taka brosandi mót sumri, ár eftir ár, sama hvernig viðrar. Hakuna matata og allt það.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli