Af því ég minntist á haust þarna síðast er víst réttast að segja ykkur frá því að Veðurstofa Íslands telur haustmánuði vera október og nóvember. Eins og víðfemi óhaminna upplýsinga veraldarvefsins virðist gera okkur fávísara með hverjum degi sem líður þá er sá möguleiki fyrir hendi að kveða rangfærslur í kútinn, eða hvað? Hér er lesning sem ég fann á haustgúggli mínu og önnur til með nákvæmari haustdagsetningu, fyrir áhugasama.
Þó geri ég mér fulla grein fyrir að mál málanna er að sjálfsögðu spurningin sem brennur á vörum ykkar allra eftir lestur síðasta pistils; er stelputuðran búin að fara út í göngutúr? Af því ég veit að þið bíðið spennt get ég sagt ykkur að síðan síðast hef ég
- vaknað snemma alla morgna og oftast farið snemma að sofa líka, bara eitt skipti sem bók hélt mér vakandi fram að miðnætti
- keyrt niður í bæ til þess að ganga um miðbæinn á blíðviðrisdegi og endaði, alls óforvendis, inni á Listasafni Íslands en þangað hef ég ekki komið síðan ég fluttist búferlum til Parísar þarna um árið
- tekið inn fleiri Panodil en ég kæri mig um að telja
- fengið mér kaffibolla á kaffihúsi niðrí bæ og reynt að heyra ekki hvað hávaðsama ameríkufólkið var að segja á næsta borði. Af hverju í ósköpunum tala ameríkanar alltaf svona hátt?
- labbað að styttunni af Jóni forseta, sem var aldrei forseti, og talið, að ég tel, 13 ógæfumenn sem heiðruðu návist hans á bekkjunum í kring
- þvegið þvott og beðið aldraðan föður minn um að ryksuga fyrir mig
- keyrt aftur niður í bæ og farið í lengri göngutúr um bæinn en síðast
- farið í Safnahúsið á Hverfisgötu vegna þess að aðgangur að Listasafninu veitti mér einnig aðgang þar. Safnahúsið reyndist vera Þjóðmenningarhúsið, sem mér persónulega þykir mun skemmtilegra nafn, en síðast þegar ég steig þar inn var ég gift kona á leið í veislu
- borðað sérbakað vínarbrauð, pekanvínarbrauð og vínarbrauð með sultu og glassúr, þó ekkert endilega í þessari röð
- kveikt á kertum öll kvöld og stundum á morgnana líka. Já, ég vakna snemma þessi dægrin
- farið í heftatöku og þrátt fyrir skeptískan hjúkrunarfræðing, sem fannst ég mætt of snemma í slíkt, er skurðsárið vel gróið og lítur svona líka vel út. Rétt eins og frúin, að sjálfsögðu
- náð lestrarmarkmiði mínu á goodreads fyrir árið
- drukkið ótal kaffibolla yfir daginn og einstaka tebolla á kvöldin
- fundið ómælda, og ómetanlega, ást og umhyggju frá fjölskyldu og vinum í heimsóknum, símtölum og skilaboðum
Þar hafið þið það og nú legg ég aldeilis ekki meira á ykkur rýjurnar mínar í laufléttri rigningu þessa sunnudagsmorguns.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli