föstudagur, 19. september 2025

Lyst á list

Af því ég minntist á list þarna um daginn, og mér er alveg sama hversu margir dagar hafa liðið síðan, þá langar mig að tala aðeins meira um list fyrir þá sem hafa lyst á list. Nánar tiltekið, listina sem ég gleypti í mig með góðri lyst þarna um daginn.

Á Listasafni Íslands byrjaði ég á því að stinga nefinu inn í salinn á bakvið afgreiðsluna

Ráðgátan um rauðmagann og aðrar sögur hljómar ef til vill eins og titill á reyfara frá Raufarhöfn en sýningin segir níu sögur af fölsuðum verkum sem rötuðu til safnins með ýmsum hætti. Raunverkum og falsverkum er stillt upp saman og meðal Gunna eins og ég hefði aldrei séð muninn, bara mænt og meðtekið. Stútfullar möppur af blaðagreinum um listaverkafalsanir lágu á víð og dreif, vafalítið áhugaverðar, en miðaldra frúin varð að láta í minni pokann þar sem lesgleraugun urðu eftir heima.

Á 2. hæð sökk frúin ofan í mosamjúkann sófa og mændi dáleiddum augum á grænlenska náttúrufegurð. Ís og kjarr, jöklar og fjöll, vatn og mosi. Grænn þráður logsauð sig í mynstrum yfir skjáinn eins og galdur og sendi frúnna á vit Ísfólkshugrenningatengsla (í gvuðanna bænum ekki biðja mig um að útskýra það). Sat límd við sófann meðan bandið rúllaði í tvígang og núna langar mig til að heimsækja Grænland.

Á 3. hæðinni tók ísfirðingur á móti mér, listamaður sem ég hafði aldrei heyrt um. Fæddur á fyrri hluta síðustu aldar, missti móður sína ungur og síðan föður sinn, rataði í kjölfarið til Ameríku til bróður síns sem var búsettur sjómaður þar (þessir íslendingar ísfirðingar). Eftir slark á sjó endaði listamaðurinn í listnámi þar ytra og átti eftir að halda listasýningar þar sem hér og heima. Magnaðar myndir af Heimaeyjunni hennar mömmu, Snæfellsjöklinum hans pabba, náttúruhamförum, víkingabrennu, Gleiðarhjallar og snjókoma á Ísafirði svo fátt eitt sé nefnt. Að auki starfaði Kristján Magnússon töluvert fyrir Eimskipafélag Íslands við m.a. veggspjalda-, dagatala- og auglýsingagerð.


Í Þjóðmenningarhúsinu Safnahúsinu eru tvær áhugaverðar sýningar í gangi. Stattu og vertu að steini! er um þjóðsögur í íslenskri myndlist. Merkilegt hvað ekki eldri en miðaldra frú kannaðist við mikið af þjóðsögum. Sérstaklega skemmtilegt að sjá Nátttröllið á glugganum eftir Ásgrím Jónsson, kannaðist við kauða úr bókinni hennar ömmu um íslenskar þjóðsögur og æfintýri, ekki minna skelfilegur nú en þá.  Samspil myndlistar og vísinda er margbreytileg eins og náttúruöflin enda skipa þau stórt hlutverk í flestum, ef ekki öllum, verkum á hinni sýningunni. Mest laðaðist ég að salnum um hafið, verkum tengt sjó og sávarafurðum uppi á veggjum sem endurspegluðu iðandi haf. Tvö verk staldraði ég sérstaklega við en þar má sjá hóp af konum streða við að vinna meðan karlmaður (hugsanlega verkstjóri og þá að sjálfsögðu karlkyns) stendur aðgerðarlaus hjá tekur út verkið

Fiskikonurnar / Hildur Hákonardóttir 1971

Fiskverkun við Eyjafjörð / Kristín Jónsdóttir 1914

Áhugavert þykir mér að bæði verkin eru verk kvenna og lítið virðist breytt þó 57 ár séu á milli verka.

Rúsínan í pylsuendanum er að hafa rambað á tréristu eftir Munch í einum af sölum Þjóðmenningarhússins, já, Edvard Munch. Vissuð þið að Listasafn Íslands hefur yfir slíkum grip að geyma? Ekki ég. Svona lengist lærið sem lifrin, jafnvel fyrir konu sem hefur farið í þrjár aðgerðir á lifur og nú legg ég aldeilis ekki meira á ykkur. Í bili, altjént.

sunnudagur, 14. september 2025

Enn af hausti

Af því ég minntist á haust þarna síðast er víst réttast að segja ykkur frá því að Veðurstofa Íslands telur haustmánuði vera október og nóvember. Eins og víðfemi óhaminna upplýsinga veraldarvefsins virðist gera okkur fávísara með hverjum degi sem líður þá er sá möguleiki fyrir hendi að kveða rangfærslur í kútinn, eða hvað? Hér er lesning sem ég fann á haustgúggli mínu og önnur til með nákvæmari haustdagsetningu, fyrir áhugasama.

Þó geri ég mér fulla grein fyrir að mál málanna er að sjálfsögðu spurningin sem brennur á vörum ykkar allra eftir lestur síðasta pistils; er stelputuðran búin að fara út í göngutúr? Af því ég veit að þið bíðið spennt get ég sagt ykkur að síðan síðast hef ég:

  • vaknað snemma alla morgna og oftast farið snemma að sofa líka, bara eitt skipti sem bók hélt mér vakandi fram að miðnætti
  • keyrt niður í bæ til þess að ganga um miðbæinn á blíðviðrisdegi og endaði, alls óforvendis, inni á Listasafni Íslands en þangað hef ég ekki komið síðan ég fluttist búferlum til Parísar þarna um árið 
  • tekið inn fleiri Panodil en ég kæri mig um að telja
  • fengið mér kaffibolla á kaffihúsi niðrí bæ og reynt að heyra ekki hvað hávaðsama ameríkufólkið var að segja á næsta borði. Af hverju í ósköpunum tala ameríkanar alltaf svona hátt?
  • labbað að styttunni af Jóni forseta, sem var aldrei forseti, og talið, að ég tel, 13 ógæfumenn sem heiðruðu návist hans á bekkjunum í kring
  • þvegið þvott og beðið aldraðan föður minn um að ryksuga fyrir mig
  • keyrt aftur niður í bæ og farið í lengri göngutúr um bæinn en síðast 
  • farið í Safnahúsið á Hverfisgötu vegna þess að aðgangur að Listasafninu veitti mér einnig aðgang þar. Safnahúsið reyndist vera Þjóðmenningarhúsið, sem mér persónulega þykir mun skemmtilegra nafn, en síðast þegar ég steig þar inn var ég gift kona á leið í veislu
  • borðað sérbakað vínarbrauð, pekanvínarbrauð og vínarbrauð með sultu og glassúr, þó ekkert endilega í þessari röð
  • kveikt á kertum öll kvöld og stundum á morgnana líka. Já, ég vakna snemma þessi dægrin
  • farið í heftatöku og þrátt fyrir skeptískan hjúkrunarfræðing, sem fannst ég mætt of snemma í slíkt, er skurðsárið vel gróið og lítur svona líka vel út. Rétt eins og frúin, að sjálfsögðu
  • náð lestrarmarkmiði mínu á goodreads fyrir árið
  • drukkið ótal kaffibolla yfir daginn og einstaka tebolla á kvöldin
  • fundið ómælda, og ómetanlega, ást og umhyggju frá fjölskyldu og vinum í heimsóknum, símtölum og skilaboðum
Þar hafið þið það og nú legg ég aldeilis ekki meira á ykkur rýjurnar mínar í laufléttri rigningu þessa sunnudagsmorguns.

þriðjudagur, 9. september 2025

Hreggviðrasamur

Eftir ótal marga góða veðurdaga er haustið komið. Það er ekki alslæmt, en auðvitað hábölvað.

Um daginn eyddi ég rúmlega fjórum dögum á spítala. Allan tímannn sem ég þrammaði spítalaganginn fram og aftur, aftur og fram, skein sól í heiði. Ef til vill var það kappsemi í bland við jákvæðni, en ég gat ekki beðið eftir að komast heim og anda að mér fersku súrefni á væntanlegum, daglegum heilsubótagöngum.

Síðan ég kom heim hef ég ekki farið út fyrir hússins dyr. Jæja, ég lýg því reyndar, í gær fór faðir minn með mig út í búð. Við fórum á bíl. Veðrið var reyndar prýðilegt. Ég var því staðráðin í að fara ÚT í göngutúr í dag og þá, auðvitað, míglekrignir hann.

Ekki að frúin sitji auðum höndum, seiseinei, fingurnir eru í stífri flettiþjálfun. Fyrst Landspítalinn var svo rausnarlegur að senda frúnna í annað lestrarfrí á sama ári, þá ber að axla þeirri skyldu af alúð og einurð.

Líklega má þakka fyrir að krabbferill frúarinnar hafi hingað til ekki náð að teygja anga sína í dýrmæta sumarmánuði, nóg er nú lagt á hinn meðal íslending að taka brosandi mót sumri, ár eftir ár, sama hvernig viðrar. Hakuna matata og allt það.

laugardagur, 24. maí 2025

Á sjó

Eitt sinn fyrir all nokkru (svo vægt sé til orða tekið) var ég stödd í gleðskap hjá vinkonu minni og hitti þar konu sem hafði um hríð starfað sem kokkur á sjó. Hún sagði mér eftirfarandi: 

  • á móti 1 bolla af hrísgrjónum setur þú 2 bolla af vatni
  • settu lok á pottinn og leyfðu suðunni að koma upp
  • þegar suðan er komin upp hrærir þú sköruglega í pottinum og leyfir grjónunum að malla í 1 - 2 mínútur tops
  • settu lokið aftur á og slökktu undir pottinum
  •  hafðu hann áfram á hellunni og leyfðu grjónunum að sjá um rest
  • einfalt mál (sagði hún)
Allar götur síðan hef ég eldað hrísgrjón á nákvæmlega þennan máta og hef aldrei verið svikin