Af því ég minntist á list þarna um daginn, og mér er alveg sama hversu margir dagar hafa liðið síðan, þá langar mig að tala aðeins meira um list fyrir þá sem hafa lyst á list. Nánar tiltekið, listina sem ég gleypti í mig með góðri lyst þarna um daginn.
Á Listasafni Íslands byrjaði ég á því að stinga nefinu inn í salinn á bakvið afgreiðsluna
Ráðgátan um rauðmagann og aðrar sögur hljómar ef til vill eins og titill á reyfara frá Raufarhöfn en sýningin segir níu sögur af fölsuðum verkum sem rötuðu til safnins með ýmsum hætti. Raunverkum og falsverkum er stillt upp saman og meðal Gunna eins og ég hefði aldrei séð muninn, bara mænt og meðtekið. Stútfullar möppur af blaðagreinum um listaverkafalsanir lágu á víð og dreif, vafalítið áhugaverðar, en miðaldra frúin varð að láta í minni pokann þar sem lesgleraugun urðu eftir heima.
Á 2. hæð sökk frúin ofan í mosamjúkann sófa og mændi dáleiddum augum á grænlenska náttúrufegurð. Ís og kjarr, jöklar og fjöll, vatn og mosi. Grænn þráður logsauð sig í mynstrum yfir skjáinn eins og galdur og sendi frúnna á vit Ísfólkshugrenningatengsla (í gvuðanna bænum ekki biðja mig um að útskýra það). Sat límd við sófann meðan bandið rúllaði í tvígang og núna langar mig til að heimsækja Grænland.
Á 3. hæðinni tók ísfirðingur á móti mér, listamaður sem ég hafði aldrei heyrt um. Fæddur á fyrri hluta síðustu aldar, missti móður sína ungur og síðan föður sinn, rataði í kjölfarið til Ameríku til bróður síns sem var búsettur sjómaður þar (þessir
íslendingar ísfirðingar). Eftir slark á sjó endaði listamaðurinn í listnámi þar ytra og átti eftir að halda listasýningar þar sem hér og heima. Magnaðar myndir af Heimaeyjunni hennar mömmu, Snæfellsjöklinum hans pabba, náttúruhamförum, víkingabrennu, Gleiðarhjallar og snjókoma á Ísafirði svo fátt eitt sé nefnt. Að auki starfaði Kristján Magnússon töluvert fyrir Eimskipafélag Íslands við m.a. veggspjalda-, dagatala- og auglýsingagerð.
Í
Þjóðmenningarhúsinu Safnahúsinu eru tvær áhugaverðar sýningar í gangi. Stattu og vertu að steini! er um þjóðsögur í íslenskri myndlist. Merkilegt hvað ekki eldri en miðaldra frú kannaðist við mikið af þjóðsögum. Sérstaklega skemmtilegt að sjá
Nátttröllið á glugganum eftir Ásgrím Jónsson, kannaðist við kauða úr bókinni hennar ömmu um íslenskar þjóðsögur og æfintýri, ekki minna skelfilegur nú en þá. Samspil myndlistar og vísinda er margbreytileg eins og náttúruöflin enda skipa þau stórt hlutverk í flestum, ef ekki öllum, verkum á hinni sýningunni. Mest laðaðist ég að salnum um hafið, verkum tengt sjó og sávarafurðum uppi á veggjum sem endurspegluðu iðandi haf. Tvö verk staldraði ég sérstaklega við en þar má sjá hóp af konum streða við að vinna meðan karlmaður (hugsanlega verkstjóri og þá að sjálfsögðu karlkyns)
stendur aðgerðarlaus hjá tekur út verkið
 |
Fiskikonurnar / Hildur Hákonardóttir 1971 |
 |
Fiskverkun við Eyjafjörð / Kristín Jónsdóttir 1914
|
Áhugavert þykir mér að bæði verkin eru verk kvenna og lítið virðist breytt þó 57 ár séu á milli verka.
Rúsínan í pylsuendanum er að hafa rambað á tréristu eftir Munch í einum af sölum Þjóðmenningarhússins, já,
Edvard Munch. Vissuð þið að Listasafn Íslands hefur yfir slíkum grip að geyma? Ekki ég. Svona lengist lærið sem lifrin, jafnvel fyrir konu sem hefur farið í þrjár aðgerðir á lifur og nú legg ég aldeilis ekki meira á ykkur. Í bili, altjént.