Hvað getur verið þjóðlegra en að ryksuga og skúra á sjálfan 17.júní? Jú, kannski að klæðast peysufötum langömmu á meðan en, æ, ég nenni bara ekki að flétta á mér hárið. Allar almennilegar húsmæður væru kannski búnar að þrífa heimilið fyrir Þjóðhátíðardaginn en, æ, ég nenni heldur ekki að vera almennileg húsmóðir.
Síðdegis síðasta sunnudag tók ég strætó til að sækja tíkina mína. Fór út við Smáralind og gekk hægum skrefum gegnum undirgöngin sem ég hljóp of oft í veikri von um að ná strætó eftir lokun í Zöru forðum daga. Missti oft af strætó sem gekk á klukkutímafresti en það er önnur saga. Ég var á leiðinni í Sunnusmára en nýtti að sjálfsögðu ferðina og kaus utankjörstaðar í Smáralind. Sníkti kaffibolla hjá systur minni og mági, sem sýndi snilldar tilþrif í kokteilhristingu kvöldinu á undan, og var svo ljónheppin að enda í upphituðum afgöngum frá matarboðinu kvöldinu áður.
Í gær brunaði ég niður í Hafnarstræti 15 til að sækja mynd sem ég hafði pantað hjá Lóuboratoríum. Fékk stæði á príma stað og lagði með Leggja-appinu. Gekk upp tröppur á þriðju hæð til að sækja eina mynd. Gekk niður sömu tröppur með tvær myndir undir handleggnum. Var búin að dást að nýju myndunum mínum í þó nokkra stund hérna heima þegar ég mundi eftir því að afleggja bílnum í Leggja-appinu.
Ég treysti vissulega á hina hefðbundnu 17.júnírigningu til að koma mér í gegnum þrif dagsins en auðvitað lætur hún ekki sjá sig þegar fjöldatakmarkanir á samkomum er í gildi, ég meina, 500 manns á Arnarhóli? Tekur því ekki að skella skúr á slíkt. Þess vegna sit ég útá verönd rétt í þessu og hnoða saman pistil enda búin að ryksuga, aldrei að vita nema ég skúri líka.
Eitt get ég þó sagt ykkur öllum í trúnaði, að þrífa klósett í sambúð með karlmanni er verknaður sem ég sakna EKKI. Legg ekki meira á ykkur á sjálfan Þjóðhátíðardaginn.
2 ummæli:
Hvaða tík varstu að sækja?
Hví nafnlaus nafnlaus?
Skrifa ummæli