mánudagur, 2. mars 2020

Talandi um bækur...

...þá kláraði ég Jussa fyrir helgina. Þrátt fyrir það er ég ekki búin að verða mér úti um næsta Eddu-mál. Síðast er ég kláraði bók eftir Jussa (eða þar síðast kannski þar sem ég er búin með þessa) hugsaði ég; njah, þú þarft að gera betur næst minn kæri. Að sjálfsögðu brást Jussi ekki væntingum mínum, fléttan var þétt og spennuþrungin fyrir svo og utan að fá loksins að kafa undir yfirborð Assads. Príma lestur.

Fyrir fleiri árum en ég kæri mig um að muna þá stóð ég frammi fyrir því að skrifa um ljóðskáld í íslenskutíma sem ég var í í Fjölbraut í Breiðholti. Ég hef aldrei verið sérstaklega ljóðhneigð og alls ekki þarna en mér til mikillar gleði þekkti ég eitt nafn á listanum, þó ekki vegna skáldskapar heldur fyrir bassaplokk. Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi Sykurmolanna, og er enn, og því var það engin spurning að Bragi Ólafsson yrði fyrir valinu. Ég fór á bókasafnið í Gerðubergi og varð mér úti um nokkrar ljóðabækur og eitt smásöguhefti. Ég hafði sumsé aldrei lesið staf eftir manninn en átti allar Sykurmolaplöturnar, og á enn. Nennti samt ekki að skrifa ritgerð, ákvað í staðinn að taka bara viðtal við Braga. 

Þetta var sumsé fyrir daga internetsins og fátt í boði fyrir unga snót annað en að taka upp símaskránna og fletta undir B. Þar var vissulega enginn Bragi Ólafsson, Sykurmoli, skráður en ég gerði mér nú lítið fyrir og hringdi, úr heimasímanum uppí svefnherbergi foreldra minna, í þá Braga Ólafssyni sem þar fyrirfundust. Já, góðan daginn, Bragi Ólafsson? Já, svaraði iðullega karlmannsröddinn. Ert þú Sykurmoli? Nei, var ávalt svarið sem ég fékk. Nema frá einum Braga Ólafssyni, bankastarfsmanni, sem svaraði aldrei í símann. 

Ég var ekki á því að gefast upp, eins og ég sagði, ég nennti alls ekki að skrifa ritgerð. Nýtti mér samband við mág minn en bróðir hans þekkti til innann tónlistarinnviða Íslands. Fékk númerið hjá einhverjum Ásgeiri sem ég útskýrði fyrir ástæðu mína fyrir að komast í samband við Braga Ólafsson. Ásgeir sá sagðist aðeins þurfa að skoða málið. Örfáum dögum seinna hringdi heimasíminn og ég var kölluð að tækinu. Á hinum enda línunnar reyndist vera Bragi nokkur Ólafsson, Sykurmoli. Nei, ég meina, ljóðskáld! Á þessum tíma starfaði hann á auglýsingastofu og virtist bara nokkuð impóneraður yfir því að einhver Fjölbrautarskjáta vildi taka við hann viðtal. Bauð mér að koma og hitta sig á auglýsingastofunni daginn eftir sem ég að sjálfsögðu þáði. 

Ætla ekki einu sinni að reyna að neita því að ég var í meðallagi mikið nervös að eiga "stefnumót" við Sykurmola ljóðskáld með gamalt upptökutæki að vopni. En, ég lét mig hafa það. Bragi virkaði hlédrægur og feiminn en líka afar viðkunnanlegur. Viðtalið, eins og ég man það, reyndist fínt. Ég fékk allavega þrusugóða einkunn fyrir, eina manneskjan sem skilaði ekki ritgerð. 

Kennarinn minn skilaði svo aldrei spólunni, þrátt fyrir að ég reyndi nokkrum sinnum að heimta hana til baka. Ég get því eingöngu stutt mig við minni, hversu áreiðanlegt (eða óáreiðanlegt) það svo sem er.

Legg ekki meira á ykkur að sinni elsku vinir, nóg komið af Bragaháttum.

Engin ummæli: