fimmtudagur, 9. janúar 2020

Ástin lætur ekki að sér hæða

Ég kynntist honum daginn sem ég flutti í Veghús. Vill til að hann býr í sama húsi og ég, á hæðinni fyrir neðan. Það er óhætt að segja að það hafi verið ást við fyrstu kynni. Á hverjum degi hlakka ég til að taka lyftuna niður til hans og mér líður vel í hvert sinn sem ég tek lyftuna aftur upp frá honum. Nýja ástin í lífi mínu heitir bílakjallari.

Lykillinn sem gengur að bílakjallaranum er aðeins lengri en venjulegur lykill, það er því einfalt að rata ávallt á þann rétta. Til að komast aftur út um sömu hurð þarf ekki lykil og því er engin þörf á neinum málamiðlunum. Hið fullkomna samband?

Var rétt nýstigin inn í andyrið á Veghúsum eftir vinnu í dag er ég áttaði mig á því að ég hafði gleymt lyklakippunni minni í bílnum. Í bílakjallaranum. Út úr lyftunni kom maður sem ég flaug á með mínu blíðasta brosi en hann reyndist vera gestur í húsinu. Í veikri von áræddi ég að kippa í húninn, ef ske kynni að hurðin hefði ekki alveg fallið að stöfum en nei, ég var búin að læsa sjálfa mig úti inni í andyri míns eigin fjölbýlis. Engar málamiðlanir þar.

Þar sem ég stóð tvístígandi og ætlaði að fara að hugsa ráð mitt lukust dyrnar upp. Inn steig kona sem krossbrá, hafði ekki átt von á neinum vomandi við dyrnar. Ég var fljót að kynna mig með mínu breiða brosi og í ljós kom að við búum ekki bara í sama fjölbýlinu heldur á sömu hæðinni. 

Svona getur nú lífið verið bráðskemmtilegt, legg ekki meira á ykkur elskurnar.

Engin ummæli: