fimmtudagur, 4. apríl 2019

Fór í ræktina í gær

Eftir svaðalega leti og át í París (sem er langtum skárri afsökun en almenn leti og át heimafyrir) fór ég sumsé loks í ræktina í gær. Eftir alla heitu tímana ákvað ég að prófa eitthvað nýtt. Eftir alla letina ákvað ég að 30 mínútna tími væri fínn fyrir frúnna. Einhver core tími sem átti víst að vinna verulega á miðju líkamans, ég meina, hálftímatími er bara næs fyrir letingja, ha? Nema, tíminn var drulluerfiður og auðvita fer enginn í ræktina í bara hálftíma, svo ég drattaðist eftir tíma að svona tæki sem eiginmaðurinn kallar skíðavél nema mér leið eins og ég væri að hlaupa í græjunni. Ákvað að dóla mér í þessu í aðrar 30 mínútur sem var afar vanhugsað þar sem ég var ekki með headfón eða neitt til að hlusta á. En jæja, ég var "hlaupin" af stað og ákvað að kýla bara á þetta. Við hliðina á mér var kona einhverju eldri en ég á eins græju en töluvert vanari, sýndist mér, horfði á fréttir á meðan hún "hljóp" eins og vindurinn nema ég (sem var ekki  með neitt í eyrunum, þið munið) fór að hlusta á pústið í henni og áður en ég vissi af var ég farin að keppa við hana, hljóp og hljóp og hljóp. 

Konan við hliðina á mér tók ekki eftir neinu en ég tók eftir því að veðurfréttirnar voru komnar á skjáinn hjá henni og seildist eftir vatnsbrúsanum mínum og tók slurk áður en ég þreifaði eftir handklæðinu til að þverra svitann af enninu á mér. Hélt áfram að hlaupa. Hljóp og hljóp og hljóp. Konan við hliðina á mér tók á sprett. Hennar andardráttur fór á flug. Síðan komu íþróttafréttirnar, á skjáinn hjá henni. Á þeim tímapunkti var ég hætt að finna fyrir tánum á mér. Svona sirka á meðan veðurfréttirnar runnu (yfir skjáinn hjá henni) var ég farin að finna stingi í tánum, allt í góðu með það. En þarna ákvað ég að hætta. Eftir 27 mínútur var mínu hlaupi lokið.

Líklega snubbóttur endir á hlaupaferli en tja, ég fór allavega i ræktina í gær, legg ekki meira á ykkur.

Engin ummæli: