sunnudagur, 24. september 2017

L'automne

Sátum á móti hvort öðru við borðstofuborðið og fórum yfir frönskuna. Fórum yfir allt efnið sem sá myndarlegi missti af í síðasta tíma, lét hann gera sömu æfingarnar og hlýddi honum yfir. Unnum heimanámið. Sá myndarlegi ranghvolfir augum, hristir höfuð, endurtekur í sífellu þessir frakkar. Heldur svo áfram að kljást við málfræði og framburð. Veit ekki alveg hvort hann ber sömu ást til franskrar tungu og ég en klárlega deilum við hrifningu á París, frönskum ostum og franskri tónlist. Talandi um tónlist þá er eiginmaðurinn yfir sig hrifinn af henni þessari

Lái honum hver sem vill.

Ykkur að segja þá er ég búin að vaska upp OG skúra. Það hlaut að koma að því. Milli þess sem rigningu dembir niður úr myrkum himni og sólin brýst fram og lýsir upp liti haustsins er ég líka búin að þurrka af og ryksuga, fannst vænlegast að demba mér í það áður en ég skúraði. Er annars ekki fylgjandi því að eyða frítíma í þrif, vil heldur eyða virku kvöldi í heimilisþrifin og nýta helgarnar í einhvað skemmtilegra. Nei, mér sumsé finnst ekki skemmtilegt að þrífa. Lái mér hver sem vill.

Í gær flaut ég með þeim myndarlega að ræktinni með það að markmiði að koma við í fiskbúðinni á leiðinni heim. Nema, um leið og ég steig inní fiskbúðina áttaði ég mig á því að ég var ekki með peningaveskið á mér. Snaraði mér því út og labbaði heim. Kom heim um það bil sem fiskbúðin lokaði. Á göngunni frá Laugardalnum í túnin tók ég slatta af myndum enda haustið heillandi. Í ófá skiptin er ég var búin að miða út myndefnið skarst haustið í leikinn

Haustið er ekki bara gult og rautt, rigning og sól heldur líka rok sem fékk frúnna til að hlægja í hvert sinn sem það þeytti myndamótífinu af stað. Lái henni hver sem vill.

Engin ummæli: