föstudagur, 22. september 2017

Berfætt á bleiku

Pat Benatar ómaði úr útvarpinu í bílnum er ég keyrði af stað úr vinnunni. Söng að sjálfsögðu með, Pat verið ein af mínum uppáhalds síðan ég heyrði í henni fyrst í græjunum hjá elstu systur minni. Hlusta líklega mest á Rondó í bílnum en um leið og óperugutlið fer af stað er ég fljót að skipta um stöð, held svo áfram að skipta eftir hentisemi, nenni ekki blaðri, þoli ekki þungarokk, hryllir við kántrí og hef enga samúð með leiðinlegum lögum. Ég sumsé rása á milli rása en ílengist þó oftast á Rondó, eins og áður segir. Haldið þið ekki að ég hafi svo dottið niður á Pat Benatar aftur rétt ókomin heim og ekki bara það, söng hástöfum með sama laginu síðasta Túnspottann. Ég, Pat og rigningin.

Mér er aftur kalt á tánum. Þrátt fyrir það er ég aftur berfætt og eins og það sé ekki nóg þá er ég aftur komin á bleika sófann. Í augnablikinu rignir ekki. Kampavínið er búið. Eða jú, það er aftur byrjað að rigna. Nenni ekki enn að vaska upp og enn síður að skúra. Kötturinn sefur á efri hæðinni í ruggustólnum hennar ömmu. Sá myndarlegi er enn í vinnunni. Það heitir víst vísindaferð þegar háskólanemar heimsækja fyrirtæki í þeim tilgangi einum að komast í vínveitingar (hefi ég heyrt). Ruggustóllinn hennar ömmu er rauður. Enn of mikil dagsbirta til að kveikja á kertum. 

Hvað sem öðru líður þá er ég komin í helgarfrí og á morgun ætla ég að sofa út, getið sveiað ykkur uppá það!

P.s. Er kona orðin miðaldra þegar henni finnst svaka kósí að liggja á bleikum sófa í blárri peysu af eiginmanninum með kaldar bífur undir bútasaumssaumuðu teppi frá móður hennar og lætur sig dreyma um að sofa út án þess að það flökri að henni að demba sér á djammið á föstudagskveldi? Svör óskast.

2 ummæli:

Íris sagði...

Klárlega miðaldra ;) en það eru nú forréttindi sko, ekki allir sem ná því að verða miðaldra sko

Nafnlaus sagði...

Veit ekki hver skilgreiningin á miðaldra er, en mér heyrist þetta vera lýsing á föstudegi hjá þroskaðri konu í andlegu jafnvægi :)
Kv. Auður.