miðvikudagur, 27. september 2017

Hafið þið heyrt um eiginmannsdindil?

Annar miðvikudagur í röð sem ég fer eiginmannslaus í frönsku. Ein æfingin í tímanum var að senda hvort öðru sms. Ég stakk upp á því að við myndum öll senda þeim myndarlega sms þar sem hann er fjarverandi. Eftir hlátur og glens með þá hugmynd komst ég svo að því að ég var ekki bara eiginmannslaus, ég var ekki heldur með símann. Mér tókst sumsé að gleyma honum heima. 

Mér er alveg sama hvort þið trúið mér eða ekki en ég er ekki á bleika sófanum og mér er ekki kalt á fótunum. Sit við borðstofuborðið og er í þykkum sokkum. Kalt á nefinu. Hlusta á Erik Satie. Kertaljós tendruð, rauðvín í glasi, rósir í vasa.

Í fjarveru þess myndarlega dró ég afgang af fílódeigi úr ísskápnum. Fann líka eina sneið af Parmaskinku, tvær sneiðar af Pestóskinku og botnfylli af rifnum osti í poka. Íhugaði að blanda grænmeti í málið en afréð svo að smyrja rjómaosti og gæða sinnepi frá Bordeaux á herlegheitin. Því næst vöðlað saman í vefju, ólafíuolíu skvett yfir og endasent í ofninn. Gjörning þennan ákvað ég að kalla eiginmannsdindil. Prýðilegur kvöldskattur get ég sagt ykkur.

Núna ætla ég að lakka á mér neglurnar og hugsa um karlinn. Alltaf að hugsa um karlinn.

Engin ummæli: