miðvikudagur, 28. júní 2017

Hríslaðist um mig...

Vegna fjölda áskoranna (það var ein) rauk ég til og tók myndir af óberminu í gær

Hér sést glöggt hvernig óbermið breiðir úr sér yfir gafl og glugga og teygir anga sína upp á svalir. Vert er að taka fram að myndin er tekin EFTIR að kallpúngurinn, sem þjáist af hnausþykkri þrjósku varðandi þessa hríslu, var búinn að klifra uppí stiga til að snyrta óskapnaðinn. Eða, afsakið, óbermið.

Í gvuðanna bænum látið gvuðsvolað sólarljósið sem skín þarna eins og himneskt ljós ekki blekkja ykkur, helv*"%! hríslan er eins og subbulegt skrímsli þarna á húsinu, ég er að segja ykkur það.



Núnú, þið sem trúið mér ekki, hvernig haldið þið að það sé að opna glugga beint út í þetta?
Já, eins og ég var búin að segja ykkur þá eru þessar myndir teknar eftir að ástkær eiginmaður minn, sá þrjóski þverhaus, snyrti óbermið.

Ég fylgdist að sjálfsögðu með honum ofan af svölunum og hélt á tímabili að hann myndi hreinlega ekki leggja í hana í ár. Læt þessa mynd hér fylgja með máli mínu til stuðnings

Þverhandarþykk þrjóska þess myndarlega lætur aldeilis ekki að sér hæðast og uppí stiga fór hann, glotti svo bara til frúarinnar, öruggur í faðmi sinnar hríslu 



1 ummæli:

ella sagði...

Hmm já, þetta er vissulega með öflugri bergfléttum trúi ég. Var einmitt að velta fyrir mér útliti skr.. ég meina óbermisins.