mánudagur, 12. júní 2017

Frásögn af því hvernig kona verður plebbi

Núna erum við orðnir plebbar sagði sá myndarlegi við mig i morgun. Ég var 32 ára þegar ég kynntist honum, bjó ein í þægilega lítilli íbúð og átti ekkert sjónvarp. Í dag er ég 42 ára, bý með þeim myndarlega í þægilega of stórri íbúð og við eigum 55" flatsjónvarp (er það orð?) síðan í gær. Svona æðir lífið áfram meðan stúlka rétt deplar auga.

Af öðrum þroskasögum stúlkunar ber þar helst til tíðinda að eftir 6 farsæl ár í starfi Melabúðarstúlkunnar þeyttist hún á hausinn og endaði á eldhúsgólfi búðarinnar miðju. Ruslatunnan sem stúlkan hafði hugsað sér að demba í pappagáminn í portinu utandyra þeyttist á undan henni og pappírinn dreifði sér fagurlega um eldhúsgólfið. Fall frúarinnar, hér eftir kallað the Macron effect, var frönsk kartefla. Þökk sé vídjókerfi búðarinnar gátum við spilað og endurspilað og skemmt okkur yfir fallinu, skemmt okkur yfir því með samstarfsfólki sem missti af sýningunni, gestum sem bar að garði, talsett með tilþrifum, hlegið fram eftir degi. Gott stöff skal ég segja ykkur.

Svo er ég líka orðin plebbi, þið náðuð því, var það ekki? Hvernig segir kona annars plebbi á frönsku?

2 ummæli:

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Veit ekki með frönsku, en á spænsku er það pottþétt "los pleblos".

Kristín sagði...

Plébeien er upprunalega orðið, en plouc nær mjög vel utan um að þýða plebbi á nútímafrönsku.