miðvikudagur, 14. júní 2017

Græn steik

Meðan ég steikti græna eplið í gær varð mér hugsað til steiktra grænna tómata og rifjaðist þá upp fyrir mér bók sem ég las fyrir margt löngu sem mig minnir að hafi verið eftir sama höfund og skrifaði Steiktir grænir tómatar. Mér finnst eins og bókin heiti Hvítt skítapakk og flekkóttur svertingi en hún gæti líka heitið Flekkóttur svertingi og hvítt skítapakk, það eru jú einhver ár síðan ég las hana en ég man að mér þótti hún feikn skemmtileg. Núna langar mig til að lesa hana aftur en finn hana hvergi í bókaflóðinu hér á heimilinu. Finnst eins og ég eigi að eiga hana en það gæti verið misminni. Er nokkuð viss um að bókin er ekki hugarburður en ef ég á hana ekki, hvar ætli ég hafi þá fengið hana að láni fyrir öllum þessum árum?

Það voru rétt passlegir afgangar af steiktum gænum eplum á eina samloku sem kom sér býsna vel í kvöld, sá myndarlegi er að kósa sig með afmælispiltinum eldri syni sínum, sitja rétt í þessu, nuddaðir og dekraðir, á Hótel Holti og kýla vömbina. 
Svei mér þá ef smjörsteikta búrbonperulaukssultusamlokan var ekki bara betri í kvöld en í gær. Ég er að segja ykkur það satt.

Engin ummæli: