föstudagur, 19. apríl 2013

Gestagangur & fjarvera

Í gær buðum við foreldrum Péturs í mat. Sátum sex að miðjum snæðingi er dyrabjallan hringdi. Þar voru mætt Magga systir og Hörður mágur sem voru drifin inn í stofu meðan ég hellti upp á kaffi og konfekti frá jólum í skál. Var passlega búin að hella upp á aðra könnu þegar dyrabjallan hringdi aftur. Foreldrar mínir voru mætt á svæðið og drifin til stofu í kaffi og konfekt. Eftir tæplega þá könnu afréð ég að hella upp á meira kaffi. Viti menn, bjallan hringdi í þriðja sinn það kvöldið. Brósi og Sævar mágur voru mættir og drifnir inn í stofu, enn til konfekt og nýuppáhellt kaffi. Hér var því handagangur, eða ætti ég að segja gestagangur, í öskjunni af óboðnum en afar velkomnum gestum. Ég áræddi þó ekki að hella uppá fjórðu könnuna, óvíst hvað það hefði leitt af sér.

Í kvöld er ég ein heima. Gal-ein. Sá myndarlegi er farinn í árlega strákaferð. Satt best að segja hlakkaði ég til þessarar helgar. Ég hlakkaði til að svala þeirri þörf að vera ein, þörf sem af og til skýtur upp kollinum. Þörfin til að elda fyrir mig eina, gleyma mér í plötunum mínum, dansa ein um allt hús og hlusta á ekkert nema umganginn í mér einni. Sem fyrr mætir sú þörf þeirri þversögn að sakna þess myndarlega. Yfir mig dembist eirðarleysi, eirðarleysi þess sem saknar. Skrýtin þessi blanda af því að vilja vera ein en geta samt ekki hugsað sér heila kvöldstund án annars manns. Helgarferð þess myndarlega styttist um heilan dag, hann kemur heim á morgun í stað sunnudags. Sem betur fer, ég get ekki beðið eftir þessum augum og þessu brosi


2 ummæli:

Íris sagði...

Já það er margt skrítið í henni veröld. Vona að þú náir nú að njóta einverunnar pínu ;)

Nafnlaus sagði...

Njóttu matar og manns mín kæra frá okkur Bróa