laugardagur, 8. ágúst 2009

Petals

Nennti ekki að vera mætt 50 mín. fyrr í vinnuna í morgun. Ég ákvað því í stað þess að taka tvistinn minn eins og venjulega, að leggja í för með 15 og 24, sem skv. leiðarkerfi straeto.is áttu að koma mér í Smáralindina 12 mín. fyrir tilsettann tíma.
Leið 15 var á réttum stað á réttum tíma og bílstjórinn afskaplega kumpánlegur og hjálpsamur, lýsti ítarlega fyrir mér staðsetningu skýlisins Straums við Birtingarkvísl, þar sem aftur skv. leiðarkerfi straeto.is, ég átti einungis að þurfa að bíða í 4 mín. eftir leið 24.
Í Straum hitti ég fyrir konu á miðjum aldri og þar sem ég var á ókunnugum strætó-stöðum, ákvað ég að bjóða góðann daginn og spyrja út í ferðir 24. Konan tjáði mér að 24 væri nýfarinn. Ég leit á klukkuna sem sýndi að enn væri heil mín. í að 24 ætti að vera við Straum. Undrunin, vonbrigðin og örvæntingin hlýtur að hafa sést á smettinu á mér, því konan fór að spyrja mig hvert ég væri að fara og í áframhaldi að ég kæmist með fimmuni í Smáralindina.
Ég hljóp því af stað í næsta skýli eingöngu til að komast að því, að fimman væri ekki væntanleg fyrr en 6 mín. yfir heila tímann. Heila tímann sem ég varð að vera mætt í vinnuna til að opna ráðuneytið sem ég ber ábyrgð á þessa helgina.
Korter til stefnu og ég hljóp á appelsínugulu hælunum á N1 þar sem ég hringdi á Hreyfil-Bæjarleiðir og pantaði bíl. Ég þarf víst varla að taka fram að meðan á öllu stóð dembdi niður rigningu eins og skollin væri á kreppa. Hárið á mér var klesst aftur og bleiku gallabuxurnar límdar við lærin á mér er leigubílinn renndi að eftir skamma bið. Ég var komin á áfangastað 2 mín. í með óveðurský rjúkandi upp úr hausnum á mér, en sem betur fer aðeins 1 skjátu í bið eftir mér fyrir utan ráðuneytið.
Ég hélt ég hefði hrist af mér árans skýið með því hugarfari að fall væri faraheill og mín biði skemmtilegur dagur. Við vorum hinsvegar undirmönnuð í dag og allir sem ekki voru staddir á gay pride, voru staddir í Smáralind. Eins og dagurinn hefði ekki verið nógu pakkaður á opnunartíma, var að sjálfsögðu fólk skv. íslenskri hefð, að dóla sér við tuskuskoðun og hugsanleg innkaup langt fram eftir lokun ráðuneytisins. Ég varð því aftur að taka sprettinn á appelsínugulu hælunum eftir uppgjör dagsins.
Óskaði þess heitt ég hefði verið með myndavélina á mér er ég hlunkaðist niður í sætið í tvistinum mínum. Við fætur mér lá falleg hrúga af appelsínugulum rósablöðum, rétt si svona í stíl við fótabúnaðinn og blés endanlega óveðurskýinu úr hausnum á mér.

Hef og enda haft það afskaplega gott með kettinum í kvöld. Sakna þess að vera heima hjá mér, en sakna myndarlega mannsins þó enn og meira.

Engin ummæli: