sunnudagur, 22. nóvember 2020

Hingað og ekki lengra!

Vaknaði snemma í gærmorgun, allavega fyrir mitt viðmið. Vaknaði enn fyrr í morgun. Klemmdi saman augun og reyndi að halda áfram að sofa en hugurinn fór óðara á flug. Reisti mig upp við dogg, teygði mig í bók á náttborðinu og kveikti á lampanum. Eftir að hafa teygað fyrsta kaffibolla dagsins ákvað ég að titill bókarinnar sem ég var að lesa væri vel við hæfi. Þrátt fyrir malandi og mjúka ketti í bælinu reif ég mig á lappir, sönglaði lagstúf undir sturtunni, neri kremi á allann kroppinn á eftir. Valdi skyrtuna litríku sem ég keypti í London fyrr á árinu, raðaði á mig skartinu frá búðinni við endann á tröppunum í París, setti á mig maskara sem ég keypti í ferjunni frá Buenos Aires til Úrúgvæ og smurði á mig varalit sem mamma gaf mér fyrir einhverjum árum. Smeygði mér í fínu rauðu eightís kápuna hennar mömmu, smellti svarta hattinum hennar ömmu á hausinn á mér og tók svo strætó niður í bæ.

Fékk gluggaborð á Kol þar sem ég snæddi himneskann brunch, hlustaða á vinina á næsta borði rabba um hve mjög þeir söknuðu matarferðanna til London, drakk kampavínsglas, mændi út úm gluggann, stillti mig um að benda félögunum á næsta borði á að prófa Nopi næst er þeir kæmust til Lundúna, pantaði mér annað kampavínsglas, hélt áfram að kýla magann með óstjórnlega góðum mat, las og pantaði mér kaffi. 

Fyrst ég var komin niður í bæ ákvað ég að fá mér göngutúr, margir mánuðir síðan ég flutti til uppsveita Reykjavíkur og langt síðan ég hafði spókað mig um á slóðum sem áður voru mínar heimaslóðir. Fyrsta sem ég heyrði var fuglasöngurinn. Því næst heyrði ég í kyrrðinni. Bærinn sem ég gekk um í dag er ekki sami bærinn og ég gekk reglulega um í fyrir bráðum ári síðan í ríflega 15 ár. Bærinn sem ég var vön að ganga var yfirleitt fullur af fólki, erlendu jafnt sem íslenskum, fólki sem gekk heim eftir vinnu eins og ég, fólki sem spókaði sig um bæinn um helgar í spássitúrum, fólk sem stoppaði til að heilsa vinum eða anda að sér súrefni, mæna í búðarglugga og spá í matseðla, íhuga hvort tími væri til að fá sér kaffi eða glas af víni. 

Þar sem ég stóð og mændi á styttuna af Jóni Sigurðssyni fann ég að mér var mál að pissa. Smeygði mér inní bókabúð og komst að því að á kaffihúsunum þar er einungis hægt að fá kaffi í mál, sumsé til að taka með sér, en mér var mál. Fékk náðarsamlegast að komast á klósett. Fannst ég í framhaldinu skuldbundin til að kaupa bók en þar sem ég eigraði um og skoðaði áhugaverða bókatitla áttaði ég mig á því að það eina sem mig langaði til var að vera uppí rúmi heima, með malandi, mjúka ketti og góða bók.

Engin ummæli: