þriðjudagur, 17. nóvember 2020

Ertu lestrarhestur?

 spurði konan konuna. Já, ég er mikill lestrarhestur svaraði síðarnefnda konan enda nýbúin að vinna sér inn einhverja nýútgefna skruddu með því að hringja inn í þáttinn. Æðislegt svaraði þáttastjórnandinn, þú ert þá vel að gjöfinni komin, hvaða bók er á náttborðinu hjá þér núna? Ja, ég er nú reyndar ekki að lesa neina bók í augnablikinu, svaraði konan. 

Mér til gamans taldi ég bækurnar á náttborðinu mínu þegar ég kom heim, þær reyndust 27 talsins. Ein á dönsku, tvær á ensku, restin á íslensku. 13 skáldsögur (þar af 4 með sögulegu ívafi), 6 krimmar, 4 ljóðabækur (þar af 3 áritaðar af höfundi til yðar einlægrar), 3 barnabækur og 1 raunsæissaga bóksala. Níu bækur eru eftir íslenska höfunda, sex eftir Breta, tvær eftir Svía, Norðmenn, Þýskara og Rússa, ein eftir Dana, Úkraíana (er það orð?) og bóksalinn raunsæi er Skoti. 6 af þessum bókum eru með bókamerki (ég sem lofaði sjálfri mér því að lesa aldrei fleiri bækur en 3 í einu), 3 hef ég lesið áður en ætla mér nú að lesa aftur. Tvær eiga að fara í jólapakka, þrjár hef ég að láni, restina á ég sjálf. 

Eins gott að ég hringdi ekki inn í þennann þátt í dag, ég hef víst ærin bókaverkefni á náttborðinu, annað en þessi kona þarna sem ég heyrði í í útvarpinu í dag, eins gott að hún vann sér inn bók, hún er jú líka svo mikill lestrarhestur. 

Engin ummæli: