miðvikudagur, 15. júlí 2020

Var að finna regnbuxurnar mínar,

ekki seinna vænna. Inni í geymslu, ofan í svartri tösku ásamt svörtu dragtinni hennar ömmu Boggu með loðkraganum, bómullarbolnum hennar ömmu Hallveigar, vindgalla af mömmu og gömlum gallabuxum af mér. Allt fatnaður sem áður dvaldi í kjallara í Samtúni, kjallara sem ég stóð í fyrr í kvöld ásamt eina eiginmanni sem ég hef um ævina átt. Fórum í gegnum útilegudótið okkar, hann nýkominn úr ferð og ég á leið í ferð. 

Rétt nýkomin heim hringdi síminn. Á hinum enda línunnar reyndist faðir minn, nýbúinn að horfa á veðurfréttir kvöldsins; Eru fararstjórarnir hjá Ferðafélaginu ekkert búnir að aflýsa ferðinni? spurði pabbi. Neei, af hverju ættu þeir að gera það? spurði ég á móti. Spáin er nú ekki kræsileg fyrir göngu svaraði pabbi. Þess vegna er nú 85% innihald bakpokans á göngu á Íslandi lög af fatnaði, einmitt til að mæta vondu veðri svaraði ég sposk. Það er ekki bara spurning um að hafa nógu mikið af fatnaði sagði pabbi, þú verður að vera með hlý föt og góð regnföt. Pabbi minn, þetta er nú ekkert í fyrsta skipti sem ég fer í göngu svaraði ég. Þú ert þá komin með tjaldið spurði pabbi, og fer lítið fyrir því? Jájá pabbi minn, það góða við þetta tjald er líka að það er smá fortjald þannig að ef það verður mikil rigning þá er ekkert mál að elda í fortjaldinu. Ertu með prímus? spurði pabbi. Já, hann Pési var svo vænn að láta mig hafa tvo litla prímusa og príma pott sem er líka hægt að hita kaffi í. Þú skalt nú fara varlega með það Katla mín, þessi tjöld eru nú yfirleitt úr þannig efnum sem geta auðveldlega fuðrað upp í eldi. Elsku pabbi, þessi græja sem Pési lánaði mér er nú bara alveg eins og græjan sem við Pétur eigum og höfum oft eldað með í þessu sama tjaldi. Nú jæja, þessir fararstjórar, þú veist hver þau eru? spurði pabbi. Heldur betur pabbi minn, við Pétur fórum margar ferðir með þeim Siggu Lóu og Braga svaraði ég. Sigga Lóa og Bragi? hváði pabbi. Já pabbi minn, þau komu bæði í síðustu menningarnæturveislu okkar Péturs svaraði ég, og töluðu við hana mömmu enda bæði tvö áhugafólk um Hornstrandir. Sigga heyri ég pabba kalla út fyrir símtólið, talaðir þú við einhverja Siggu Lóu og Braga í síðasta borgarapartýi hjá Kötlu og Pétri?

Föður mínum líst sumsé ekkert of vel á að fjórða dóttir hans sé á leið í 3ja daga göngu, með allt á bakinu, í hvassviðri og rigningu. Miklu roki og mikilli rigningu ef ég skildi föður minn rétt. En, ég er búin að finna regnbuxurnar og þá get ég farið að sofa. Legg ekki meira á ykkur.

Engin ummæli: