laugardagur, 4. júlí 2020

Graslegnar hljómplötur

Ég hefði getað raðað plötunum upp eftir plötuheiti, en ég gerði það ekki. Ég hefði líka getað raðað erlendum flytjendum eftir eftirnafni og íslenskum eftir nafni, en ég gerði það ekki heldur. Ég raðaði öllum flytjendum, hvort heldur sem íslenskum, erlendum eða hljómsveitum, eftir fyrsta staf í nafni. Ekkert erlent hálfkák hér í íslenskri stafrófsröðun, takk fyrir. Þessu ljóstra ég upp hér vegna gríðarlegs áhuga, heilar 3 manneskjur búnar að spyrja. Takk fyrir.

Unnur vinkona stakk uppá því síðast er hún var í heimsókn að ég myndi bara nota dömurakvél til að slá hjá mér grasblettinn (jújú, hún hefur húmorinn fyrir neðan nefið) en af því ég hlýddi henni ekki strax þá hefur hreint ótrúlegt magn af grasi og stráum vaxið (Birtu og Bjössa til ómældrar gleði) á þessum bletti sem sannarlega ber nafn með rentu, þ.e.a.s. blettur. Í dag fór ég og keypti grasklippur. Ef ég væri enn gift þá væri minn fyrrverandi löngu búinn að klippa grasið í tætlur en af því að ég er skilin þá eru klippurnar enn í umbúðunum. Ég þurfti nauðsynlega að lesa nokkra kafla í bókinni sem ég er að lesa og síðan varð ég að hlusta á nokkrar hljómplötur og þegar þessu var loks nokkurn veginn skammlaust áorkað þá var bara kominn tími til að elda kvöldmatinn. 

Þannig týnist víst tíminn.

Engin ummæli: