mánudagur, 27. apríl 2020

Svona og svona...

Ætli það séu ekki að verða 20 ár síðan ég var verslunarstjóri í skóversluninni Steinari Waage. Annar tími, annað líf, sannarlega, nema í dag neyddist ég loks til að henda Ecco inniskónum sem ég keypti mér þarna um árið. Bestu inniskór sem ég hef um ævina átt, svo góðir að ég prangaði þeim inn á móður mína, 2 systur og bróður minn. Í gegnum árin hafa svo sem móðir mín, systur og bróðir gengið í gegnum ferlið sem ég gekk í gegnum í dag, þ.e.a.s. að vera búin að ganga inniskóna út og gott betur. 

Af öðrum stórkostlegum breytingum í lífi frúarinnar þá iðaði feit og bústin (er hægt að vera bæði?) býfluga í langa glugganum í eldhúskróknum mínum um daginn. Ég hef fylgst með öðru fólki veiða býflugur og geitunga í glas svo ég áræddi, eftir þó nokkra umhugsun, að sækja stórt glas og greip að auki með mér Kampavínskokteilabók sem ég fékk gefins um daginn. Stappaði í mig stálinu (og fullvissaði sjálfa mig um að ég gæti ekki hringt í neinn) áður en ég dembdi glasinu yfir hana Maju, ríghélt í glasið og renndi því síðan yfir á kampavínskokteilabókina. Hélt hvoru tveggja þétt að hvort öðru og gekk út á verönd þar sem ég sleppti Maju býflugu út um kattagatið á verandargirðingunni minni. Sem betur fer flaug Maja feginn þarna eitthvað allt annað í staðinn fyrir að fyrtast við og RÁÐAST Á MIG! Skjögraði aftur inn um verandardyrnar með gæsahúð um allann kropinn, já, svei mér þá, á tánum líka. 

Eins og það væri ekki nóg þá átti þetta atvik sér stað á afmælisdegi Boggu systur. Boggu systur sem hefði rúllað upp dagblaði og lamið mig í hausinn áður en hún hefði lamið Maju býflugu í hausinn. Boggu systur sem sá sjálf um að losa sig við býflugnabú sem sat áfast við húsið hennar í fyrra (eða hitteðfyrra). Boggu systur sem á líklega eftir að hlægja að gunguskapnum í mér þar til önnur hvor okkar.....ojæja, svona er þetta bara og já, meðan ég man, elsku Bogga mín, innilega til hamingju með daginn! Í tilefni af því að þú fæddist þá fangaði ég feita og bústna (er hægt að vera bæði?) býflugu í glas og hleypti henni svo út í frelsið.... ha?! 

Eftir vinnu í dag fór ég með plast og pappa í ruslageymsluna. Hér í húsum er vel flokkað og ekkert nema gott um það að segja nema samrýndu systkinin ákváðu að elta mig inn í ruslageymslu. Náði svo sem Bjössa nokkuð fljótt og henti út fyrir dyr. Birta hins vegar lét kerlinguna svoleiðis elta sig um alla ruslageymslu meðan bróðir hennar emjaði fyrir utan dyr. Var búin að nota bæði blíðan og reiðan tón áður en ég náði kattarræskninu út. Að auki á Sunna systurdóttir mín afmæli í dag en hún myndi reyndar ekki rúlla upp blaði og lemja mig í hausinn með því.

Legg ekki meira á ykkur að sinni elsku vinir.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

<3 til hamingju með systur þína elsku dúlla <3