mánudagur, 6. apríl 2020

Í vinnunni í dag, stuttu fyrir hádegi,

fékk ég símtal frá konu sem sagði mér óðamála að hún byggi í bláa húsinu fyrir ofan mig og að þegar maðurinn hennar opnaði bílskúrinn þeirra í morgun hefði stokkið þaðan út köttur sem leit út eins og kötturinn sem ég auglýsti týndann á hverfissíðunni um helgina. Besta símtal dagsins. Pési skipaði mér að skjótast heim þegar ég fór í bankann sem ég glöð gerði. Nema, heima tók Birta á móti mér, enginn Bjössi. 

Svo ég fór í bankann og þaðan aftur til vinnu. Ákvað í lok dags að kaupa fisk til að sjóða handa henni Birtu minni. Hálft í hvoru vonaði ég vissulega að Bjössi yrði líka heima en reyndi jafnframt að segja sjálfri mér að ég yrði líka að vera raunsæ, það væri alls ekki víst að ég myndi sjá Bjössa aftur.

Ég var því ekkert sérlega vongóð er ég steig inn um dyrnar hérna heima en, viti menn, Bjössi kom hlaupandi á móti mér. Það sem ég gladdist og Birta líka, sýndist mér, systkinin eru búin að sleikja hvort annað, leika við hvort annað, sitja í gluggakistunni saman og mæna út og jú, borða þorskhnakka af sama disknum. 

Fæ ekki betur séð en að Bjössi hafi aðeins lagt af á nýja kúrnum, bílskúrskúrnum. Ætli hann verði ekki fljótur að bæta því aftur á sig blessaður, er það ekki einmitt þannig sem flestir megrunarkúrar virka?

Engin ummæli: